Þakkir til Ingibjargar Einarsdóttur við starfslok

Þau tímamót urðu um síðustu mánaðarmót að Ingibjörg Einarsdóttir á Langsstöðum lét af störfum eftir 32 ára farsælt starf sem húsvörður hjá sveitarfélaginu. Ingibjörg, eða Inga, fagnar 70 ára afmæli í maí.

Inga starfaði fyrst fyrir Hraungerðishrepp, síðar Flóahrepp. Hún hefur sinnt störfum sínum af metnaði og alúð og ávallt verið reiðubúin að bregðast við öllu því sem snýr að húsinu. Sennilega þekkir enginn húsnæði Þingborgar eins vel og Ingibjörg enda hefur hún verið við störf frá því að félagsheimilið var tekið í notkun.

Störf hennar eru ómetanleg fyrir sveitarfélagið og samfélagið okkar og eru henni færðar innilegustu þakkir fyrir sín störf öll þessi ár.

Við þessi tímamót færði sveitarstjórn henni gjöf og þakklæti fyrir störf sín.

Það er ljóst að Inga á nóg eftir enda er hún kraftmikill dugnaðarforkur. Hún situr ekki auðum höndum þessa dagana enda allt á fullu í sauðburði og vorverkum á Langsstöðum.