Persónuverndarstefna

Þann 15. júlí 2018 tóku gildi ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 er byggja á reglugerð ESB um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. 

Sveitarfélög vinna með mikið af viðkvæmum persónuupplýsingum í tengslum við lögbundna þjónustu þeirra, m.a. vegna reksturs grunnskóla, leikskóla, félagsþjónustu, öldrunarþjónustu, leyfisveitingar, starfsmannahald o.fl. Sveitarfélög bera ábyrgð á meðferð allra þessara upplýsinga og að farið sé að lögum um persónuvernd.

Lykilatriði í persónuvernd er að starfsfólk sveitarfélaga sé meðvitað um ábyrgð sína og þekki grunnatriði persónuverndar. Flestir öryggisbrestir eiga rætur að rekja til mannlegra mistaka sem hægt er að fækka með góðri fræðslu, leiðbeiningum og verkferlum. Einnig er nauðsynlegt að sveitarfélög séu með persónuverndarfulltrúa sem starfsfólk sveitarfélags getur leitað til með persónuverndarmál. Persónuverndarfulltrúi er mjög mikilvægur þegar kemur að framfylgd persónuverndar innan sveitarfélags sem og þegar kemur að fræðslu til starfsmanna.

Persónuvernd er með á vefsvæði sínu mikið magn upplýsinga og leiðbeininga er nýtast sveitarfélögum í sínum störfum og er hvatt til þess að starfsmenn kynni sér þær upplýsingar vel.

Sveitarfélagið Flóahreppur hefur sett sér þau markmið að tryggja áreiðanleika, trúnað og öryggi persónuupplýsinga sem sveitarfélagið og allar undirstofnanir þess vinna. Sveitarfélagið hefur á þeim grundvelli samþykkt persónuverndarstefnu.