Flóahreppur

Menningarsagan í Flóanum hefur djúpar rætur og inniheldur vel kunnugt handverk og verslun, fyrri ára. Á svæðinu hefur í gegnum tíðina verið einstaklega mikið um hugvits- og hagleiksfólk og hafa komið merkar uppfinningar héðan. Má þar nefna Flóaáveituna en hún var mikið stórvirki á sínum tíma. Framkvæmdir við hana hófust vorið 1922 og mun hún hafa náð yfir 12 þúsund hektara land. Með tilkomu hennar urðu mikil umskipti í búskap og atvinnuháttum í Flóanum. Landbúnaður er helsta atvinnugreinin í sveitarfélaginu en ferðaþjónustan fer stöðugt vaxandi.

Finna má ýmsa afþreyingarmöguleika og þjónustu eins og gistingar, söfn og handverkshús, ferðamannafjárhús o.fl.. Það er því óhætt að segja að Flóahreppur sé lifandi samfélag með fjölbreytt mannlíf sem býður upp á mikla afþreyingu, fjölda viðburða og samkoma, nýjar hefðir og rótgrónar. Þjóðtrúin lifir í örnefnum og sögnum. Ein af Íslendingasögunum, Flóamanna saga, varðveitir minningu svæðisins sem einnig er paradís fyrir fuglalífs- og náttúruunnendur.

Sveitarfélagið Flóahreppur varð til við sameiningarkosningar 11.febrúar 2006 þegar íbúar þriggja hreppa, Hraungerðishrepps, Gaulverjabæjarhrepps og Villingaholtshrepps samþykktu sameiningu. Áður höfðu grunnskólar og leikskólar hreppanna þriggja sameinast í einn grunnskóla, Flóaskóla sem staðsettur er á Villingaholti og einn leikskóla, Krakkaborg sem staðsettur er í Þingborg.
Vel var unnið að undirbúningi sameiningu skólanna og leikskólanna sem tókst með ágætum og þannig komið í veg fyrir ýmsar hindranir sem gjarna verða við sameiningu sveitarfélaga þegar kemur að einum viðkvæmasta þætti í rekstri sveitarfélaga.

Ákveðið var að aðsetur stjórnsýslunnar yrði í Þingborg og þar var opnuð skrifstofa í júlí 2006 þegar sveitarstjóri var ráðinn.