Snjómokstur og hálkuvarnir

Viðmiðunarreglur vegna snjómoksturs í Flóahreppi

 

Markmið Flóahrepps varðandi snjómokstur og hálkuvarnir eru að tryggja öryggi og færð fyrir skólaakstur þannig að börn komist í skólann á réttum tíma, að lágmarka óþægindi íbúa og fyrirtækja af völdum snjós og íss og að auðvelda íbúum að sækja vinnu og skóla.

 

Útboð Vegagerðarinnar og Flóahrepps á snjómokstri miðar við tímabilið 1. nóvember – 15. apríl ár hvert.

 

Að mokstri og hálkuvörnum loknum skulu vegir vera vel ökufærir fyrir vetrarbúnar bifreiðar og áferð yfirborðsins þannig að vegfarendum stafi ekki hætta af.

 

Sveitarstjóri metur þörf á snjómokstri og hálkuvörnum í samráði við verktaka sem sinna snjómokstri í sveitarfélaginu og Vegagerðina. Viðkomandi hefur ekki upplýsingar um veður eða færð á öllum vegum en allir leggja sig fram um að hafa sem besta yfirsýn yfir verkefnið.

 

Mikilvægt er að þeim sem annast snjómokstur sé sýnd tillitssemi við störf sín. Þeir leggja á sig mikla vinnu, oft við erfiðar aðstæður, við að halda akstur- og gönguleiðum í sveitarfélaginu greiðfærum.

 

Íbúar skulu hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins varðandi allt sem viðkemur snjómokstri og/eða hálkuvörnum. Sveitarstjóri er tengiliður við íbúa og verktaka í snjómokstri.

 

Stofnanir sveitarfélagsins

Snjómokstri og hálkuvörnum við stofnanir, húsnæði og á svæðum í eigu sveitarfélagsins er stjórnað af Flóahreppi. Bílastæði við stofnanir eru mokaðar og hálkuvarðar eftir þörfum og hafa bílastæði við leik- og grunnskóla forgang.

 

Dreifbýli

Héraðs- og tengivegir – Helmingamokstur

Snjómokstur og hálkuvarnir í dreifbýli er í höndum Vegagerðarinnar og Flóahrepps.

 

Reynt er að haga snjómokstri á þann hátt að fyrst séu helstu vegir gerðir færir með því að mynda slóða sem svo eru breikkaðir. Að því loknu er farið í frekari hreinsun á heimreiðum eftir því sem við á.

 

Vegagerðin hefur skilgreint þá vegi sem heimilt er að beita helmingamokstursreglu. Þá vegi er heimilt að moka með kostnaðarþátttöku Vegagerðarinnar að hámarki 3 sinnum í viku meðan fært þykir vegna veðráttu og snjóþyngsla.

 

Miðað er við að búið sé að opna allar aðalleiðir kl. 7:00 að morgni þá daga sem mokað er.

 

Ef ljóst er að moka eða hálkuverja þarf oftar en 3 sinnum í viku þarf að liggja fyrir leyfi Vegagerðarinnar á greiðslu helmings kostnaðar. Vegagerðin tekur ákvörðun um þann mokstur að höfðu samráði við sveitarstjóra Flóahrepps.

 

Samkvæmt reglum Vegagerðarinnar er heimilt að moka sérstaklega vegna jarðarfara og greiðir Vegagerðin þann kostnað að fullu. Einnig gildir helmingamokstursregla ef um er að ræða björgun verðmæta þ.e. björgun manna eða verðmæta frá yfirvofandi hættu eða tjóni.

 

Sveitarfélagið getur ákveðið að þjónusta ákveðna bæi oftar t.d vegna nauðsynlegrar þjónustu sem sinnt er af sveitarfélaginu eða vegna aðstæðna sem geta ógnað heilsu og öryggi fólks.

 

Starfsmaður sveitarfélagsins, verktaka og Vegagerðarinnar skulu meta þörf á mokstri og hálkuvörnum á héraðs- og tengivegum.

 

Eftirfarandi vegir eru mokaðir af verktaka Flóahrepps í samstarfi við Vegagerðina:

  • Ölvisholtsvegur (303)
  • Oddgeirshólavegur (304)
  • Villingaholtsvegur (305)
  • Hamarsvegur (308)
  • Kolsholtsvegur (309)
  • Önundarholtsvegur (311)
  • Vorsabæjarvegur (312)
  • Langholtsvegur (318)
  • Ármótavegur (3040)
  • Arnarhólsvegur (3115)
  • Hryggjarvegur (3136)
  • Forsætisvegur (3230)

Þjónusta á öðrum héraðsvegum er greidd að fullu af Flóahreppi.

Heimreiðar í dreifbýli

Verktaki á vegum Flóahrepps sér um að moka heimreiðar í dreifbýli. Sveitarstjóri er tengiliður við íbúa og snjómokstursverktaka.

  • Heimreiðar í dreifbýli eru mokaðar þegar metin er þörf á. Sveitarstjóri metur þörf og möguleika á snjómokstri á heimreiðum í samráði við verktaka sem sinnir snjómokstri.
  • Einungis eru mokaðar heimreiðar að bæjum þar sem er skráð föst búseta og viðkomandi íbúar eru með skráð lögheimili.
  • Aðilar sem taka upp fasta búsetu og skrá lögheimili á stöðum í dreifbýli sem ekki hefur verið mokað að áður geta haft samband við skrifstofu sveitarfélagsins varðandi mokstur.
  • Mokstur á heimreiðum miðar að því að gera veg að íbúðarhúsi aksturshæfan en plön eru ekki mokuð af sveitarfélaginu.
  • Verktaki skal ganga þannig frá verkinu að snjóruðningar valdi ekki meiri vandræðum en sá snjór sem fyrir var heima við hús svo sem fyrir aftan innkeyrslur, á vegamótum og upp að sorptunnum.
  • Verktaki getur sleppt mokstri á heimreiðum ef aðstæður leyfa ekki greiðan mokstur svo sem vegna þröngra hliða, trjágróðurs eða annars sem getur hamlað för eða valdið tjóni fyrir verktaka og/eða íbúa. Verktaki lætur sveitarstjóra vita ef aðstæður leyfa ekki greiðan mokstur.
  • Sveitarfélagið sér ekki um að moka frá sorpílátum en íbúar þurfa að tryggja aðgengi að sorpílátum í tengslum við sorphirðu.
  • Sveitarfélagið annast ekki mokstur heimreiða að frístundahúsum, óháð því hvort þar eru skráð lögheimili eða ekki. Sveitarfélagið greiðir ekki fyrir snjómokstur eða hálkuvarnir inni á frístundahúsasvæðum.

 

 

Þjóðvegir, stofnvegir og tengivegir sem Vegagerðin þjónustar:

Vegagerðin sér um mokstur á þjóðvegum og á ákveðnum stofn- og tengivegum líkt og sýnt er í vetrarþjónustukorti Vegagerðarinnar á heimasíðu þeirra.

 

Vegagerðin er þjónustuaðili á eftirfarandi vegum í sveitarfélaginu:

  • Suðurlandsvegur (1)
    • Þjónustuflokkur 1
    • Mokað alla daga
  • Villingaholtsvegur (305)
    • Þjónustuflokkur 3
    • Mokað sunnudaga, mánudaga, miðvikudaga, fimmtudaga og föstudaga
  • Gaulverjabæjarvegur frá Selfossi að Félagslundi (33)
    • Þjónustuflokkur 3
    • Mokað sunnudaga, mánudaga, miðvikudaga, fimmtudaga og föstudaga
  • Gaulverjabæjarvegur frá Félagslundi að Árlundi (33)
    • Þjónustuflokkur 4
    • Mokað mánudaga og föstudaga af Vegagerðinni og helmingamokstur aðra daga ef þarf
  • Urriðafossvegur (302)
    • Þjónustuflokkur 4
    • Mokað mánudaga og föstudaga af Vegagerðinni og helmingamokstur aðra daga ef þarf

 

Upplýsingar um mokstur og færð á þessum vegum er hægt að fá hjá Vegagerðinni.

 

Atvinnurekstur:

  • Verktaki á vegum Flóahrepps sér um að moka vegi að atvinnurekstri í dreifbýli á þeim dögum sem mokstur fer fram á öðrum vegum, sé þess óskað af atvinnurekanda.
  • Gera skal skriflegan samning þar um á milli fyrirtækis og sveitarfélags sem gildir frá 1. nóvember – 15. apríl ár hvert.
  • Sveitarfélagið annast ekki mokstur á plönum við fyrirtæki.
  • Sveitarstjóri er tengiliður við atvinnurekendur og snjómokstursverktaka.
  • Ef þörf er á meiri mokstri en sveitarfélagið sinnir getur atvinnurekandi samið beint við verktaka um auka þjónustu við mokstur.

 

Hafa ber í huga að ofangreindar reglur eru til viðmiðunar og ber að líta á þær sem slíkar.

Tíðarfar og snjóþyngsli geta raskað áformum um mokstur. Hvorki Vegagerðin né sveitarfélagið bera ábyrgð á tjóni sem kann að verða takist ekki að framfylgja viðmiðunarreglunum. Upplýsingar tengdar þjóðvegum í þessu skjali eru eingöngu til viðmiðunar en Vegagerðin getur breytt þeim hvenær sem er.

 

Samþykkt í sveitarstjórn Flóahrepps 10.01.2023

Mynd: Ólafur Ingi Ólafsson, Halakoti 2023