Örvar Rafn Hlíðdal hlýtur Íslensku menntaverðlaunin 2025

Örvar Rafn á Bessastöðum með Frú Höllu Tómasdóttur forseta Íslands
Örvar Rafn á Bessastöðum með Frú Höllu Tómasdóttur forseta Íslands

Íslensku menntaverðlaunin 2025 voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 4. nóvember 2025.

Fimm kennarar voru tilnefndir í flokki framúrskarandi kennara í ár en það var Örvar Rafn Hlíðdal, íþróttakennari við Flóaskóla sem hlaut Íslensku menntaverðlaunin fyrir framúrskarandi íþróttakennslu sem byggir á hvatningu, aga og samkennd og fyrir eftirtektarverðan árangur í starfi. Skólinn hefur meðal annars unnið Skólahreysti tvisvar sinnum þrátt fyrir fámennan nemendahóp.

Það er mikil viðurkenning fyrir Örvar Rafn, nemendur og litla öfluga skólann okkar að fá svona viðurkenningu.

Innilega til hamingju!

 

Af vefsíðunni skolathroun.is:

,,Örvar Rafn þykir einstaklega laginn við að ná til allra nemenda, eða eins og þetta var orðað í einni af umsögnunum þar sem mælt var með tilnefningu hans: Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða lítið vatnshrætt kríli sem þarf að hvetja og styðja til að taka fyrstu sundtökin eða hvort um ræðir öflugan ungling sem stundar íþróttir af kappi og þarf að hvetja til dáða …

Flóaskóli hefur undir leiðsögn Örvars tekið þátt í Skólahreysti undanfarin ár. Þó skólinn sé fámennur, hafa keppnislið skólans náð inn í úrslit ár eftir ár. Frá 2021 hefur skólinn tvisvar lent í þriðja sæti úrslitakeppninnar og tvisvar unnið keppnina."

Sjá einnig hér: https://skolathroun.is/orvar-rafn-hliddal/

 

Markmið verðlaunanna er að vekja athygli á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístunda starfi og auka veg menntaumbóta.

Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum; fyrir framúrskarandi skólastarf, kennslu, þróunarverkefni og framlag til eflingar iðn- og verkenntunar. Einnig eru veitt sérstök hvatningarverðlaun.

Að verðlaunum standa: Embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, innviðaráðuneytið, Samtök iðnaðarins, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag stjórnenda á skrifstofum fræðslumála í sveitarfélögum, Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök áhugafólks um skólaþróun.