Menningarstyrkur 2024

Á vorhátíðinni Fjör í Flóa afhentu sveitarstjóri og formaður íþrótta- æskulýðs- og menningarnefndar menningarstyrk 2024.

Alls bárust sex umsóknir um menningarstyrk. Íþrótta- æskulýðs- og menningarnefnd fór yfir umsóknir og lagði til við sveitarstjórn Flóahrepps að veita tveimur verkefnum styrk í ár og hlýtur hvort verkefni 200.000 kr styrk en bæði verkefnin uppfylla þau skilyrði sem sett eru í reglum um úthlutun styrkja til menningarmála í Flóahreppi.

Annað verkefnið sem hlaut menningarstyrk í ár er verkefnið Uppbygging á skógræktarreitnum Skagási. Eftirfarandi er umsögn menningarnefndar um verkefnið:

Verkefnið Uppbygging á skógræktarreitnum Skagási felur í sér að bæta þá aðstöðu sem fyrir er á svæðinu. Styrkurinn rennur í söfnun fyrir bálskýli, sem gerir fólki kleyft að nýta aðstöðuna yfir lengra tímabil. Svæðið er nú þegar nýtt nokkuð vel af íbúum Flóahrepps, þá mikið af leikskólanum Krakkaborg sem og Flóaskóla. Vonast er til að með aukinni uppbyggingu munu fleiri nýta sér svæðið til heilsubótar, en græn svæði stuðla að bættri líkamlegri og andlegri heilsu, sem og að betri aðstaða leyfir fólki af öllum aldri að njóta svæðisins.

Hitt verkefnið sem hlaut styrk er verkefnið Fuglarnir í Mýrinni. Hér er umsögn menningarnefndar um verkefnið:

Markmið verkefnisins Fuglarnir í Mýrinni er að fræða fólk um fuglana sem lifa í nærumhverfi okkar hér í Flóahrepp. Þekking á fuglum og lífsferlum þeirra er mikilvæg til að stuðla að verndun þessara tegunda. Haldnar verða fræðslusmiðjur með áherslu á þrjá þætti; hreiðurgerð, söng og samskipti og fæðunám. Með þessum smiðjum er vonast til að auka þekkingu fólks á mikilvægi votlenda, sem og þeirra fugla sem þar búa.

 

Styrkhafar 2024: Hannes og Bryndís fyrir hönd verkefnisins "Fuglarnir í mýrinni" og Erla Björg fyrir hönd Skógræktarfélags Villingaholtshrepps og verkefnið "Uppbygging á skógrækstarreitnum Skagási". Á myndinni er einnig Hulda Kristjánsdóttir sveitarstjóri Flóahrepps.