Hreinsunarátak og opnir dagar á gámasvæði

Árlegt hreinsunarátak er haldið í maí og hvetjum við íbúa, fasteignaeigendur, atvinnurekendur og aðra til þess að taka þátt með því að huga að umhverfinu og leggja sitt af mörkum í tiltekt um allt sveitarfélagið. Þetta á við um allan úrgang og lausamuni á lendum og lóðum.

Í tengslum við hreinsunarátak geta fasteignaeigendur og atvinnurekendur í Flóahreppi losað sig við úrgang á gámasvæði ÍGF í Hrísmýri dagana 12.-17. maí án þess að nýta inneignarkort eða greiða fyrir þann úrgang sem komið er með. Athugið að einnig verður opið á laugardeginum 17. maí í þessari viku frá kl. 11:00-16:00.

Starfsmenn á gámasvæðinu geta farið fram á að viðkomandi sýni fram á að hann komi úr Flóahreppi t.d með framvísun á inneignarkortinu þó ekki verði klippt í það þessa daga.

Við hvetjum að sjálfsögðu til þess að allur úrgangur sé flokkaður eins vel og mögulegt er þegar komið er með hann á gámasvæðið til að minnka kostnað sveitarfélagsins, og þar með íbúa, við förgun úrgangsins.

Ekki verður í boði að fá gáma heim á bæi á kostnað sveitarfélagsins en einstaklingar og atvinnurekendur geta fengið til sín gám á eigin kostnað. Gáma má panta hjá Íslenska Gámafélaginu www.igf.is. Minnt er á að ákveðinn úrgangur, svo sem járn, ber skilagjald og því er hægt að fá járnagám án þess að greiða fyrir hann.