Undanfarna mánuði hefur verið unnið að stækkun á salnum í Þingborg. Markmið breytinganna er að bæta íþróttaaðstöðu og eiga möguleika á meira rými á stærri viðburðum sem haldnir eru í húsinu svo sem Fjöri í Flóa, Aðventuhátíð, Þorrablóti og fleira.
Einn stærsti hluti framkvæmdanna var að fjarlægja sjálft sviðið sem var steypt, opna sviðsopið, setja burðarbita í loftið og steypa nýja gólfplötu þar undir. Að auki hefur verið unnið mikið í rafmagni í salnum, loftið í öllum salnum málað, gömlum flúorljósum skipt út fyrir led ljós sem eru sérstaklega ætluð fyrir íþróttalýsingu, allir veggir málaðir og skipt um undirlag og dúk á gólfi. Nýtt hurðarop var sett á vesturvegg salarins fyrir rými sem ætlað er fyrir geymslu íþróttaáhalda og hurðarop út úr sal austanmegin var stækkað þannig að nú verður tvöföld hurð inn í salinn úr anddyrinu.
Framkvæmdir eru nú á lokametrunum og stefnt á að íþróttakennsla hefjist í salnum á allra næstu dögum. Einnig verður þorrablót Flóamanna haldið 7. febrúar í ný uppgerðum salnum.



