Frábær árangur í flokkun eftir fyrstu tæmingu!

Mynd: Ólafur Ingi Ólafsson Halakoti, 2023
Mynd: Ólafur Ingi Ólafsson Halakoti, 2023

Nú eru starfsmenn ÍGF að klára að tæma fyrstu ferð af plasti og pappír/pappa eftir að ný lög um meðhöndlun úrgangs tóku gildi.

Starfsmenn ÍGF höfðu sérstaklega orð á því hversu vel væri flokkað og að plast í nýju tunnunum væri nánast 100% nýtilegt í endurvinnslu. Það þýðir að sveitarfélagið Flóahreppur fær úrvinnslugjald frá Úrvinnslusjóði af nánast öllu plastinu sem sótt var í gær og í dag og hluta af pappanum skv. skilmálum Úrvinnslusjóðs. 

Flokkun og sérstök söfnun úrgangs eru lykilatriði í að stuðla að endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs og draga úr magni úrgangs sem fer í endanlega förgun. Sérstök söfnun skal vera á a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundum: pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Af þessum úrgangsflokkum eru umbúðarúrgangur (úr pappír, pappa, gleri, málmi og plasti) og spilliefni úrgangsflokkar sem stafa frá vöruflokkum sem lagt er úrvinnslugjald á.

Úrvinnslusjóður greiðir sveitarfélaginu fyrir það sem safnast af umbúðum úr plasti, pappírs- og pappa ásamt því að greiða fyrir gler og málma úr grenndargámum. Allar greiðslur frá Úrvinnslusjóði til sveitarfélagsins renna beint í sorphirðuna en ekki í aðra málaflokka sem sveitarfélagið sinnir.

Það er því samvinnuverkefni sveitarfélagsins og íbúanna sem hér búa að stefna að lækkun sorphirðugjalda með góðum árangri í flokkun.