Á 331. fundi sveitarstjórnar Flóahrepps var fjárhagsáætlun 2026-2029 samþykkt.
Á hverju ári samþykkir sveitarstjórn fjárhagsáætlun fyrir komandi ár og áætlun fyrir næstu þrjú ár þar á eftir. Fjárhagsáætlun næsta árs er bindandi ákvörðun sveitarstjórnar um allar fjárhagslegar ráðstafanir og áætlun næstu þriggja ára er heildaráætlun sem mótar áherslumál og stefnu til lengri tíma. Í áætluninni er farið yfir helstu verkefni sveitarfélagsins og gerð grein fyrir forsendum. Í fjárhagsáætlun má finna framkvæmda- og fjárfestingaáætlun og kostnaðaráætlun fyrir rekstur, eignir og skuldir bæði í heild og eftir deildum og málaflokkum.
Helstu niðurstöður fyrir árið 2026 eru eftirfarandi:
- Útsvarsprósenta óbreytt eða 14,97%
- Álagning fasteignagjalda í A flokki lækkar úr 0,45% í 0,40%
- Álagning fasteignagjalda í B flokki óbreytt eða 1,32%
- Álagning fasteignagjalda í C flokki lækkar úr 1,60% í 1,56%
- Tekjur samstæðu A og B hluta 1.522 milljónir króna
- Rekstrargjöld A og B hluta 1.310 milljónir króna
- Afskriftir A og B hluta 41,4 milljón króna
- Fjármagnsgjöld A og B hluta 1 milljón króna
- Rekstrarniðurstaða A og B hluta jákvæð um 170,2 milljónir króna
- Áætlað handbært fé frá rekstri A og B hluta eru um 124,6 milljónir króna
- Afborganir langtíma lána áætlaðar 10,8 milljónir króna
- Áætlaðar fjárfestingar í A hluta nema 406 milljónum og í B hluta 73,5 milljónum króna
- Áætluð viðhaldsþörf innan fasteigna sveitarfélagsins nema um 23 milljónir króna
- Ekki er gert ráð fyrir lántöku á árinu 2026
Flóahreppur er sveitarfélag í vexti. Þann 1. janúar 2025 voru íbúar Flóahrepps 726 skv. tölum Hagstofunnar. Skv. Þjóðskrá Íslands voru íbúar Flóahrepps 755 þann 1. desember 2025. Nokkur uppbygging hefur verið síðustu ár og áfram er eftirspurn eftir húsnæði í sveitarfélaginu. Í dag eru 279 fullbúnar íbúðir í Flóahreppi og fjölgar þeim um 12 á milli ára. 19 íbúðir eru í byggingu eða uppi byggingaráform. Framkvæmdir við nýja íbúðarbyggð á svæðinu við Þingborg eru að fara af stað á komandi vikum og munu þær framkvæmdir og uppbygging standa yfir á komandi mánuðum og árum. Að auki eru einkaaðilar með fjölbreytt lóðaframboð víðsvegar um sveitarfélagið. Ný Ölfusárbrú er í byggingu og eru framkvæmdir þar á áætun og áfram gert ráð fyrir því að hún verði tekin í notkun á árinu 2028. Bygging Ölfusárbrúar verður enn betri tenging Flóahrepps við atvinnusókn og styrkir sveitarfélagið og framtíðar uppbygginu þess. Við þessa stóru framkvæmd er ljóst að áhugi á svæðinu eykst enn frekar og á það við um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar.
Fjárhagsleg staða og rekstur sveitarfélagsins er áfram í góðu jafnvægi. Skuldahlutfall sveitarfélagsins er lágt og stærstu tekjustofnar sveitarfélagsins eru útsvar og fasteignaskattur ásamt framlögum Jöfnunarsjóðs. Tekjustofnar eru að hækka á milli ára en áætluð rekstrargjöld í A og B hluta hækka einnig á milli ára.
Sveitarfélagið býr yfir öflugum mannauði sem starfar fyrir sveitarfélagið. Menntunarstig í leik- og grunnskóla er hátt og mikil fagþekking til staðar. Starfsmenn eru í dag 59 talsins. Hlutfall launa og launatengdra gjalda af tekjum árið 2026 er áætlað 49%. Mikilvægt er að sýna ábyrgð og ráðdeild í rekstri stærstu stofnana sveitarfélagsins án þess þó að skerða þjónustu en áhersla er lögð á að stjórnendur stýri sínum deildum í samræmi við gildandi fjárhagsáætlun hverju sinni.
Þjónustugjöld svo sem vegna sorphirðu og seyrulosunar eru ákveðin ár hvert og markmiðið að þau standi undir rekstri þess málaflokks að sem mestum hluta.
Sveitarfélagið innheimtir fæðisgjöld í leikskóla en skólamáltíðir verða áfram gjaldfrjálsar í grunnskóla á árinu 2026. Fæðisgjöldum er ætlað að standa að stærstum hluta undir hráefniskostnaði. Vistunargjöld í leikskóla og skólavistun við grunnskóla eru innheimt eftir skráningum en það er þjónusta sem sveitarfélagið velur að veita og greiðir að stærstum hluta með.
Vatnsgjald er innheimt af tengdum fasteignum, lóðum og beitarhólfum og stendur að hluta undir rekstri vatnsveitu sveitarfélagsins.
Útsvarsprósenta fyrir árið 2026 verður óbreytt eða 14,97%. Álagning fasteignagjalda í A flokki lækkar á milli ára og fer úr 0,45% í 0,40% og hefur álagning á A flokk því lækkað úr 0,50% í 0,40% frá árinu 2022. Lækkun í A flokki hefur m.a. áhrif á eigendur íbúða og íbúðarhúsa, frístundahúsa og útihúsa. Álagning í B flokki verður óbreytt á milli ára en álagning í C flokki lækkar úr 1,60% í 1,56%.
Lækkun á álagningu fasteignagjalda ýtir enn frekar undir Flóahrepp sem ákjósanlegan valkost fyrir nýja íbúa og atvinnurekendur í sveitarfélaginu.
Vatnsgjald hækkar um 3,5% á á það við um lágmarks, hámarks og fast gjald.
Árlegt gjald fyrir seyrulosun stendur í stað fyrir frístundahús þar sem hreinsun fer fram á 5 ára fresti en hækkar um 3883 kr á íbúðarhús sem eru hreinsuð á 3 ára fresti.
Gjöld fyrir sorphirðu við heimili taka engum breytingum á milli ára sem þýðir raunlækkun á sorphirðu fyrir íbúa. Lækkunina má meðal annars rekja til góðs árangurs við flokkun úrgangs sem hafa leitt til endurgreiðslna úr Úrvinnslusjóði en einnig er stöðugt verið að rýna í skipulag og utanumhald á málaflokknum.
Sorpeyðingargjald stendur einnig í stað á milli ára en það gjald er lagt á allt íbúðar- frístunda- og atvinnuhúsnæði í sveitarfélaginu. Gjaldið veitir aðgang að sorpkerfi og afsetningu úrgangs og kemur upp í það fasta gjald sem sveitarfélagið greiðir í rekstur sorpkerfisins. Áfram verður í boði að nálgast inneignarkort fyrir allar eignir sem greiða sorpeyðingargjald og verður inneign ársins 2026 alls 500 kg á hverju korti. Áfram verður boðið upp á opna daga að vori þar sem hægt verður að henda flokkuðum úrgangi á söfnunarstöð hjá þjónusuaðila án þess að greiða skv. gjaldskrá þjónustuaðila eða nota inneignarkortin frá sveitarfélaginu.
Gjald á búfjáreigendur vegna dýrahræja verður áfram í gildi en fyrirkomulag söfnunar, flutnings og förgunar kann að breytast á árinu sbr. nýlega undirritaða viljayfirliýsingu á milli Flóahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna úrgangsflokksins.
Gjalddagareglur fasteignagjalda, vatnsgjalds, sorphirðu, seyrulosunar og lóðarleigu verða óbreyttar á milli ára og eru tíu gjalddagar fyrir greiðslur 60.001 kr og hærri.
Gjaldskrár sem snúa að börnum og viðkvæmum hópum hækka ekki umfram 3,5% á árinu. Þetta eru gjaldskrár fyrir akstur aldraðra og fatlað fólk, fyrir mat og heimsendingu á mat fyrir eldri borgara, vistunargjöld og fæðisgjöld á leikskóla og vegna frístundar við Flóaskóla.
Gjaldskrá fyrir félagsheimilin Þingborg og Félagslund hækkar almennt um 5%.
Framundan eru áframhaldandi fjárfestingar hjá sveitarfélaginu. Á árinu 2026 er gert ráð fyrir því að fjárfesta fyrir rúmlega 70 milljónir í vatnsveitunni og fjárfestingar i A hluta eru áætlaðar rúmlega 400 milljónir. Stór hluti fjárfestinga í A flokki er vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar við Flóaskóla og nýrrar íbúðarbyggðar í Þingborg en sú fjárfesting á að skila sér til baka á komandi árum með uppbyggingu nýrra íbúða og fjölgun íbúa. Áfram en gert ráð fyrir að koma upp áhaldahúsi fyrir sveitarfélagið sem ekki náðist á árinu 2025 eins og til stóð. Aðrar framkvæmdir sem mætti nefna eru til dæmis endurbætur á þaki og klæðningu í Þjórsárveri, gatnagerð í Heiðargerði og aðgengi fyrir fatlað fólk á skrifstofu sveitarfélagsins.
Samhliða íbúafjölgun og uppbyggingu í sveitarfélaginu þarf að huga að stækkun leikskóla í náinni framtíð.
Áfram verður unnið í nýju aðalskipulagi sveitarfélagsins á árinu 2026.
Áfram verður lögð áhersla á að viðhald á fasteignum sveitarfélagsins verði gott og er gert ráð fyrir um 23 milljónum í viðhald og framkvæmdir á fasteignum og á lóðum sveitarfélagsins á árinu.
Vegna nauðsynlegrar innviðauppbyggingar og fjárfestinga á komandi árum er áfram verið að horfa á mögulega sölu á eignum sem ekki gegna lykilhlutverki í lögbundnum verkefnum sveitarfélagsins til að mæta að hluta uppbyggingu og nýjum fjárfestingum.
Sveitarstjórn Flóahrepps fagnar þessari metnaðarfullu fjárhagsáætlun en áætlunin sýnir áfram þann metnað sem hér ríkir fyrir uppbyggingu og þróun samfélagsins í Flóahreppi. Á sama tíma og ráðist er í framkvæmdir og fjárfestingu og góða nærþjónustu við íbúa er gert ráð fyrir ábyrgum rekstri og skynsamlegri nýtingu fjármuna.
Hulda Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Flóahrepps