Fjárhagsáætlun Flóahrepps 2024-2027

Mynd: Ólafur Ingi Ólafsson 2022
Mynd: Ólafur Ingi Ólafsson 2022

Á hverju ári samþykkir sveitarstjórn fjárhagsáætlun fyrir komandi ár og áætlun fyrir næstu þrjú ár þar á eftir. Fjárhagsáætlun næsta árs er bindandi ákvörðun sveitarstjórnar um allar fjárhagslegar ráðstafanir og áætlun næstu þriggja ára er heildaráætlun sem mótar áherslumál og stefnu til lengri tíma. Í áætluninni er farið yfir helstu verkefni sveitarfélagsins og gerð grein fyrir forsendum. Í fjárhagsáætlun má finna framkvæmdaáætlun og kostnaðaráætlun fyrir rekstur, eignir og skuldir bæði í heild og eftir deildum og málaflokkum.

 

Flóahreppur er sveitarfélag í stöðugum vexti. Þann 1. janúar 2023 voru íbúar Flóahrepps 708 og í desember 2023 eru íbúar orðnir 722. Mikil uppbygging hefur verið síðustu ár og áfram er eftirspurn eftir húsnæði í sveitarfélaginu. Í dag eru 263 fullbúnar íbúðir í Flóahreppi og 20 íbúðir eru í byggingu eða uppi byggingaráform um þær. Ný Ölfusárbrú styrkir okkar sveitarfélag enn frekar en stefnt er að því að hún verði tekin í notkun haustið 2027.

 

Fjárhagsleg staða og rekstur sveitarfélagsins er í ágætu jafnvægi. Skuldahlutfall sveitarfélagsins er lágt. Tekjustofnar eru takmarkaðir en rekstrartekjur hækka þó nokkuð á milli ára. Áætlað útsvar og fasteignaskattur hækkar um tæplega 55 miljónir á milli áranna 2023 og 2024 og áætluð framlög Jöfnunarsjóðs hækka um 22 milljónir. Aðrar tekjur hækka einnig skv. áætlun og eru áætlaðar heildartekjur að hækka um ca. 96 milljónir.

Áætluð rekstrargjöld í A og B hluta hækka um 38 milljónir á milli ára.

Sveitarfélagið býr yfir öflugum mannauði sem starfar fyrir sveitarfélagið. Starfsmenn eru í dag 55 talsins. Hlutfall launa og launatengdra gjalda af heildartekjum árið 2024 er um 49% og lækkar hlutfallið aðeins á milli ára. Mikilvægt er að sýna ávallt ábyrgð og ráðdeild í rekstri stærstu stofnana sveitarfélagsins og að stjórnendur stýri sínum deildum í samræmi við fjárhagsáætlun.

 

Stærstu tekjustofnar sveitarfélagsins eru samanlagt útsvar og fasteignaskattur og svo framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þjónustugjöld svo sem vegna sorphirðu og seyrulosunar eru ákveðin ár hvert og markmiðið að þau standi undir rekstrinum að sem mestum hluta. Sveitarfélagið innheimtir fæðisgjöld vegna leik- og grunnskóla sem ætlað er að standa undir hráefniskostnaði og svo vistunargjöld í leikskóla og skólavistun við grunnskóla en það er þjónusta sem sveitarfélagið greiðir að stærstum hluta með. Vatnsgjald er innheimt af tengdum fasteignum, lóðum og beitarhólfum og stendur að hluta undir rekstri vatnsveitu sveitarfélagsins.

 

Útsvarsprósenta fyrir árið 2024 verður óbreytt eða 14,74%. Álagning fasteignagjalda í í A, B og C flokki verður óbreytt á milli ára. Vatnsgjald hækkar um 5% og gerð er breyting á álagningarstofni vatnsgjalds á C flokk og útihús sem fer úr 0,2% í 0,3% en að hámarki 500.000 kr. Árlegt gjald fyrir seyrulosun hækkar um 6% og fer það gjald eftir gjaldskrá umsjónarsveitarfélags sem er í dag Hrunamannahreppur. Gjöld fyrir sorphirðu og afsetningu úrgangs taka ekki breytingum á milli ára og áfram verður greitt útfrá rúmmáli sorpíláta ásamt sorpeyðingargjaldi sem veitir aðgang að sorpkerfi og afsetningu úrgangs. Með góðum árangri í flokkun á úrgangi geta íbúar í sameiningu náð kostnaði við sorphirðu niður. Nýtt gjald er sett á búfjáreigendur vegna dýrahræja og er sveitarfélagið þar með að uppfylla ný lög um meðhöndlun úrgangs þar sem sá greiðir sem notar.

 

Gjalddagareglur fasteignagjalda, vatnsgjalds, sorphirðu, seyrulosunar og lóðarleigu verða óbreyttar á milli ára og eru tíu gjalddagar fyrir greiðslur 60.001 kr og hærri. Ekki eru gerðar breytingar á gjaldskrám fyrir fæði í leik og grunnskóla eða á vistunargjöldum í skólavistun og leikskóla. Gjaldskrá fyrir hundahald er einnig óbreytt. Nýjar gjaldskrár eru gerðar vegna aksturs fatlaðs fólks og aldraðra ásamt gjaldskrá fyrir mat og heimsendingu á mat til aldraðra og öryrkja. Gjaldskrá fyrir félagsheimilin Þingborg og Félagslund er uppfærð og gjaldskrárliðir taka breytingum. Sumir liðir eru hækkaðir og aðrir standa í stað eða eru lækkaðir lítillega.

 

Framundan eru áframhaldandi fjárfestingar í innviðum svo sem vatnsveitu og grunnskóla. Fyrirhugað er að fjárfesta áfram í Vatnsveitu Flóahrepps með kortlagningu á veitunni, greiningu á viðhaldsþörf og forgangsröðun verkefna innan veitunnar.

Á árinu 2024 verður farið af stað í breytingar á núverandi skólahúsnæði til að mæta betur þörfum skólans og undirbúningur og hönnun á viðbyggingu fer einnig af stað á árinu. Fyrirhugað er að fara í framkvæmdir við viðbyggingu á árinu 2025 og 2026 og reiknað er með lántöku vegna þess á árinu 2025.

Samhliða íbúafjölgun og uppbyggingu í sveitarfélaginu þarf að huga að stækkun leikskóla í náinni framtíð. Sveitarfélagið mun á árinu 2024 halda áfram að undirbúa uppbyggingu vegna íbúðarbyggðar við Þingborg ásamt því að klára heildstætt deiliskipulag fyrir athafna- og iðnaðarsvæðið í Heiðargerði. Endurskoðun aðalskipulags mun fara af stað á árinu 2024 og gert er ráð fyrir fjármagni í þá vinnu.

Gert er ráð fyrr um 25 milljónum í viðhald fasteigna og á lóðum sveitarfélagsins á árinu.

 

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2024:

 

  • Tekjur samstæðu A og B hluta 1.162 milljónir króna
  • Rekstrargjöld A og B hluta 1.056 milljónir króna
  • Afskriftir A og B hluta 35,3 milljónir króna
  • Fjármagnsgjöld A og B hluta 12,1 milljónir
  • Rekstrarniðurstaða A og B hluta jákvæð um 58,7 milljónir króna
  • Áætlað handbært fé frá rekstri A og B hluta um 109 milljónir króna
  • Afborganir langtíma lána áætlaðar 11,7 milljónir króna
  • Áætlaðar fjárfestingar nema 108 milljónum króna
  • Áætluð viðhaldsþörf innan fasteigna sveitarfélagsins nema um 25 milljónum króna
  • Gert er ráð fyrir nýju langtímaláni á árinu 2025 vegna fjárfestinga
  • Útsvarsprósenta óbreytt eða 14,74%
  • Álagning fasteignagjalda í A flokki óbreytt eða 0,47%
  • Álagning fasteignagjalda í B flokki óbreytt eða 1,32%
  • Álagning fasteignagjalda í C flokki óbreytt 1,60%
  • Óbreytt gjaldskrá fyrir sorphirðu við heimili og sorpeyðingargjald
  • Ný gjaldskrá fyrir dýrahræ
  • Ný gjaldskrá fyrir akstur fatlaðs fólks og aldraðra
  • Ný gjaldskrá fyrir heimsendingu á mat fyrir eldri borgara
  • Uppfærð gjaldskrá félagsheimila
  • Óbreytt gjaldskrá vegna fæðis í leik- og grunnskóla, tekur breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs
  • Óbreytt gjaldskrá vegna leikskóla, tekur breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs
  • Óbreytt vistunargjöld í skólavistun, tekur breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs
  • Óbreytt gjaldskrá fyrir hundahald
  • 5% hækkun á vatnsgjaldi vegna lágmarks, hámarks og af föstu gjaldi.
  • Álagningastofn vatnsgjalds á C flokk og útihús fer úr 0,2% í 0,3%, hámark 500.000 kr
  • 6% hækkun á seyrulosunargjaldi en gjaldskrá fylgir umsjónarsveitarfélagi

 

Að vinnu við fjárhagsáætlun komu, auk sveitarstjóra, stjórnendur deilda, bókari og launafulltrúi ásamt formönnum nefnda og sveitarstjórn og er þeim hér með þakkað fyrir sína vinnu við gerð áætlunarinnar.

Hulda Kristjánsdóttir, sveitarstjóri