Ársreikningur Flóahrepps fyrir árið 2024 var lagður fram til seinni umræðu í sveitarstjórn ásamt sundurliðunarbók og endurskoðunarskýrslu þann 6. maí 2025. Fyrri umræða um ársreikninginn fór fram í sveitarstjórn þann 7. apríl 2025.
Niðurstaða ársreiknings Flóahrepps fyrir árið 2024 er jákvæð í A hluta og í A og B hluta samanlagt.
Samkvæmt ársreikningi sveitarfélagsins námu rekstrartekjur A og B hluta á árinu 2024 1.333 millj.kr. Rekstrarniðurstaða A og B hluta var jákvæð um 179,3 millj. kr., en í A hluta var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 172,2 millj. kr.. og hefur rekstrarniðurstaða aldrei verið eins góð frá stofnun Flóahrepps árið 2006.
Veltufé frá rekstri A og B hluta nam 218,7 millj. kr. en 199,2 millj.kr. í A hluta.
Bókfært verð eigna sveitarfélagsins í A og B hluta nam 1384,1 millj. kr. í árslok 2024, eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 1.002,9 millj. kr. og skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins námu samtals 381,2 millj. kr. í árslok 2024.
Fjárfesting í rekstrarfjármunum á árinu 2024 nam 59,7 millj. kr í A og B hluta. Stærsti hluti fjárfestinga var í breytingum á skólahúsnæði Flóaskóla.
Skuldahlutfall sveitarfélagsins í árslok 2024, þ.e. hlutfall heildarskulda og skuldbindinga af tekjum, nam 29% í A og B hluta.
Skuldaviðmið ársins er ekki reiknað þar sem veltufjármunir sveitarfélagsins eru umfram skuldir.
Rekstrarjöfnuður á þriggja ára tímabili (2022-2024) er jákvæður um 296,7 millj. kr. í A og B hluta.
Hlutfall launa og launatengdra gjalda af rekstrartekjum í A og B hluta nemur 49% en áætlun gerði ráð fyrir 52,9%.
Í ársreikningnum er hlutdeild sveitarfélagsins í einstökum liðum rekstrar og efnahags samstarfsverkefna færð til samræmis við ábyrgð sveitarfélagsins.
Engin lántaka var á árinu 2024 og öll fjárfesting greidd með afgangi af rekstri.
Niðurstöður ársreiknings 2024 sýna mjög góða stöðu sveitarfélagsins og sýnir fram á getu sveitarfélagsins til að sinna sínum lögbundnu verkefnum. Veltufé frá rekstri upp á 218,7 millj. kr. endurspeglar það svigrúm sem rekstur sveitarfélagsins gefur til að standa undir nýjum fjárfestingum, framkvæmdum og uppbyggingu innviða í þágu íbúa.
Hulda Kristjánsdóttir, sveitarstjóri
