Staðsetning:

    Félagsheimilið Þjórsárver er í Flóahreppi á vesturbakka Þjórsár, sunnan við þjóðveg 1. Hingað liggja nokkrir vegir, en sá sem liggur best við alfaraleið er Villingaholtsvegur.
Leið 1: Villingaholtsvegur. Ef þú ert að koma frá Reykjavík og ekur um þjóðveg 1, þá ekur þú austur fyrir Selfoss, ca 6 km. Þá beygir þú við skilti Þjórsárvers (einnig annað skilti “Villingaholtsvegur”) og ekur í suður og suðausturátt ca 9 km (mest á bundnu slitlagi) þangað til þú sérð myndarlegt samkomuhús á hægri hönd, í snyrtilegu umhverfi. Það er Þjórsárver. Á vinstri hönd er hin fallega Villingaholtskirkja og rétt hjá Þjórsárveri er Villingaholtsvatn.
Leið 2: Urriðafossvegur. Einnig er hægt að komast til okkar af þjóðvegi 1 með því að aka niður með Þjórsá vestanverðri, framhjá Urriðafossi sem vert er að skoða í leiðinni. Þjórsárver er svo að segja á vegarenda, lítið eitt til hægri. Urriðafossvegur er malarvegur, um 8 km að lengd.
Leið 3: Strandleiðin. Ef þú ert að koma strandleiðina, gegnum Eyrarbakka og Stokkseyri, þá getur þú annaðhvort beygt til vinstri, nokkru austan við Stokkseyri, þar sem stendur “Villingaholt” á skilti, eða ekið áfram með ströndinni og síðan upp með Þjórsá. Þessar tvær leiðir koma saman rétt sunnan við Þjórsárver, sem bíður þá vinstra megin vegar, uppi á holtinu. Malbikaður vegur er frá Stokkseyri að Félagslundi en malarvegir eftir það. Leiðin frá Stokkseyri, með ströndinni og upp með ánni að Þjórsárveri, er um 23 km.
 

Staðhættir:

     Þjórsárver stendur á Villingaholti í fyrrum Villingaholtsheppi, nú Flóahreppi, austarlega í neðanverðri Árnessýslu. Þjórsá rennur á austurmörkun sveitarinnar og sést vel til hennar frá Þjórsárveri. Þar breiðir hún úr sér á víðáttumiklum söndum eftir að hún kemur niður á flatlendið við Egilsstaðahverfi. Ofar fellur áin í þrengri farveg milli hárra ása allt ofan af Skeiðum. Efst hefur hún grafið sér farveg með austurbrún Þjórsárhrauna, uns hún fellur fram af hraunbrúninni í Urriðafossi, vatnsmesta fossi landsins, hjá samnefndum bæ.
Áin hefur brotið mikið land á flatlendinu þar sem hún breiðir nú úr sér. Hún hefur ýmist hlaðið í sig sandi eða grafið sér farvegi. Færa hefur þurft bæina, bæði í Mjósyndi og Ferjunesi undan ágangi hennar. Sögur eru uppi um að á fyrri öldum Íslandsbyggðar hafi áin á þessum kafla runnið í þröngum farvegi milli gróinna bakka. Áttu konurnar í Mjósyndi og Sauðholti sem er austan árinnar að hafa getað notað sama þvottaklappið þegar þær skoluðu úr fatnaði sínum við ána. Eftir að hinar miklu virkjanir komu í Þjórsá hefur rennsli hennar jafnast mikið.
Þjórsárver er miðsvæðis á Suðurlandinu og þaðan fljótfarið til að skoða aðra staði, s.s. Njáluslóðir í Rangárvallasýslu, Gullfoss, Geysi og Þingvelli uppi í sveitum. átök brimsins við ströndina, fjölskrúðugt fuglalífið í Flóanum, hinn tignarlega Urriðafoss og gljúfur Þjórsár, eða á slóðir Móra og annarra huldra vætta í nágrenninu.

Landslag og fjallasýn:
Landslag í fyrrum Villingaholtshreppi einkennist annars vegar af lágum ásum sem liggja frá NA til SV, og hinsvegar flatlendi í suður- og austurhluta sveitarinnar sem svokölluð Þjórsárhraun hafa myndað. Land allt má heita grasi vaxið og er auðvelt til ræktunar. Landsvæði með Þjórsá eru sendin og hefur sandfok stundum valdið skaða, einkum fyrr á tímum. Nú eru sandar þessir að mestu grónir.
Útsýni er mjög mikið frá Þjórsárveri og er fjallahringurinn líklega hvergi á Íslandi víðari og meiri. Hann nær frá Selvogsheiði með Skálafell hæst í vestri, og norður og austur um og talsvert til suðurs með Eyjafjallajökul og Seljalandsmúlann syðst. Vestmannaeyjar ber svo við sjónarrönd enn sunnar. Í vestur og norður sést m.a. til Botnsúlna, Búrfells í Grímsnesi, Kálfstinda og Vörðufells. Í góðu skyggni sést alla leið inn að Bláfelli. Í austur sést m.a. til Heklu, Tindafjallajökuls og Þríhyrnings. Vestan við Þjórsárver er Villingaholtsvatn, lítið og snoturt stöðuvatn. Handan við það sér heim að bæjarhverfunum Vatnsenda og Vatnsholti. Þar suður af er Kolsholtshverfið. Í norðaustri, upp með Þjórsá sér heim að Egilsstaðahverfi og í suðaustri, niður með Þjórsá sést til bæjanna Syðri-Grófar, Mjósyndis, Forsætishverfis og Ferjuness syðst. Við Ferjunes og Egilsstaði voru áður ferjur á Þjórsár.