Sveitarfélagið Flóahreppur varð til við sameiningarkosningar 11.febrúar 2006 þegar íbúar þriggja hreppa, Hraungerðishrepps, Gaulverjabæjarhrepps og Villingaholtshrepps samþykktu sameiningu. Áður höfðu grunnskólar og leikskólar hreppanna þriggja sameinast í einn grunnskóla, Flóaskóla sem staðsettur er í Villingaholti og einn leikskóla, Krakkaborg sem staðsettur er í Þingborg.
Vel var unnið að undirbúningi sameiningu skólanna og leikskólanna sem tókst með ágætum og þannig komið í veg fyrir ýmsar hindranir sem gjarna verða við sameiningu sveitarfélaga þegar kemur að einum viðkvæmasta þætti í rekstri sveitarfélaga.

Ákveðið var að aðsetur stjórnsýslunnar yrði í Þingborg og þar var opnuð skrifstofa í júlí 2006 þegar sveitarstjóri var ráðinn. Á skrifstofu starfa einnig, fyrir utan sveitarstjóra, tveir skrifstofumenn, annar í 80% starfi sem annast bókhald og launavinnslu og hinn í 50% sem annast öll almenn ritarastörf.

Á skrifstofu er umsjónarmaður fasteigna einnig með aðstöðu.