Staðardagskrá 21 – Hvað er nú það?
Staðardagskrá 21 er í raun velferðaráætlun sem sveitarfélög vinna að, hvert um sig, þar sem horft er á þróun samfélagins til langs tíma og sett niður áætlun um þau verkefni sem þarf að hrinda í framkvæmd.
Nánar tiltekið er hér um að ræða áætlun um þau verk sem vinna þarf í hverju samfélagi um sig til að nálgast markmiðið um sjálfbæra þróun á 21. öldinni, þ.e.a.s. þróun sem tryggir komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði.
Staðardagskrá 21 er með öðrum orðum heildaráætlun um þróun hvers samfélags um sig fram á 21. öldina. Áætlunin snýst ekki eingöngu um umhverfismál í venjulegum skilningi, heldur er henni ætlað að taka jafnframt tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta.
Eftirfarandi fimm atriði hafa verið skilgreind sem meginþættir eða vegvísar fyrir Staðardagskrárstarfið:
· Heildarsýn og þverfagleg hugsun
· Virk þátttaka íbúanna
· Hringrásarviðhorf
· Tillit til hnattrænna sjónarmiða
· Áhersla á langtímaáætlanir
Þetta verkefni hefur verið í gangi hér á landi frá árinu 1998 og hefur meirihluti íslenskra sveitarfélaga tekið þátt í þessu starfi.
Sveitarstjórn Flóahrepps hefur ákveðið að taka þátt í þessu verkefni og móta þar með velferðaráætlun sveitarfélagsins til langs tíma.
Skipuð hefur verið sérstök nefnd sem stýrir vinnunni en lögð er mikil áhersla á þátttöku almennings í sveitarfélaginu og íbúarnir komi sínum hugmyndum og sjónarmiðum á framfæri í vinnunni.
Val á málaflokkum – fimm veigamestu!??
Eins og komið hefur fram er að hefjast vinna við mótun Staðardagskrár 21 fyrir Flóahrepp. Um er að ræða velferðaráætlun þar sem horft er á þróun samfélagsins til langs tíma og sett niður áætlun um þau verkefni sem þarf að hrinda í framkvæmd.
Staðardagskrárnefnd sér um undirbúninginn og hefur ákveðið að leita til lesenda vefjarins www.floahreppur.is um að taka þátt í könnun um hvaða málaflokka þeir vilja að teknir verði fyrir í Staðardagskránni. Hér að neðan eru hugmyndir að málaflokkum sem hugsanlegt er að taka fyrir. Lesendur eru beðnir um að tilgreina 5 málaflokka sem þeir vilja sjá fjallað um og senda val sitt með tölvupósti á netfangið: sd21.floa@gmail.com fyrir 15. janúar 2009.
Niðurstöður úr þessari könnun verða hafðar til hliðsjónar við endanlegt val á málaflokkum.
Allar nánari upplýsingar veitir Hafsteinn Hafliðason, formaður Staðardagskrárnefndarinnar í síma 4823346 eða netfang: sd21.floa@gmail.com
Allir eru hvattir til að taka þátt og hafa þannig áhrif á mótun samfélagsins sem við búum í!
Hugmyndir að málaflokkum, merktu aðeins við þá 5 sem þér finnst mestu máli skipta:
Drykkjarvatn | Hafið |
Fráveitumál | Útivist |
Hávaði og loftmengun | Umferð og flutningar |
Menningarminjar | Ræktun |
Umhverfisfræðsla | Málefni barna og unglinga |
Náttúra og umhverfi | Matvælaframleiðsla |
Skipulagsmál | Stofnanir sveitarfélagsins |
Úrgangur frá heimilum og fyrirtækjum | Landgræðsla |
Meindýraeyðing | Efnistaka – Námur |
Orkunýting | Neysla og lífstíll |
Skógrækt |
Auðlindanotkun |
Opinber innkaup | Atvinnulífið |
Annað: Hvað? |
|