Lög U.M.F. Baldurs
1. grein
Félagið heitir „Ungmennafélagið Baldur“, skammstafað U.M.F.B.

2. grein
Inntöku í félagið geta þeir einir fengið sem gangast undir lög og stefnuskrá Ungmennafélags Íslands, U.M.F.Í.

3. grein
Félagið vinnur samkvæmt eftirfarandi stefnuskrá:
1)   Að styðja og efla stjórnarfarslegt, menningarlegt og fjárhagslegt sjálfstæði Íslendinga og vekja virðingu þeirra fyrir þjóðernislegum verðmætum sínum og annarra.
2)   Að hjálpa félagsmönnum og öðrum til aukins menningarþroska með fræðslu og líkamsþjálfun og með því að rökhugsa þjóðnytjamál, ræða þau og vinna að framgangi þeirra.
3)   Að vernda æskulýð landsins gegn hverskonar skaðnautnum og vinna að útrýmingu þeirra úr landinu.
4)   Að stuðla að því að allir þjóðfélagsþegnar njóti sem jafnastra réttinda og aðstöðu til menntunar og atvinnu.
5)   Að vinna að skógrækt og landgræðslu og stuðla að verndun náttúru landsins.
6)   Að vinna að því að skapa í hvívetna heilbrigðan hugsunarhátt meðal æskulýðsins, stuðla að verndun heilsunnar, fegrun og hreinsun móðurmálsins, heilbrigðum skemmtunum og leggja rækt við bókmenntir og listir þjóðarinnar. Kjörorðið er: Íslandi allt.

4. grein
Tilgangi sínum hugsar félagið sér að ná, meðal annars með því að halda fundi þar sem fram fari fyrirlestrar, umræður, upplestur, söngur og fl. Skal hafa þá tilhögun um fyrirkomulag fundanna sem aðalfundur ákveður hverju sinni. Ennfremur skal félagið beita sér fyrir námskeiðum og stuðla að ýmsum framkvæmdum sem bestar þykja hverju sinni.

5. grein
Innganga í félagið er öllum heimil. Kosningarétt hafa félagsmenn 12 ára og eldri og kjörgengir eru félagsmenn 14 ára og eldri. Hver sem óskar inntöku í félagið leggur fyrir formann inntökubeiðni sem hann leggur svo fyrir félagsfund og skal einfaldur meirihluti atkvæða fundarmanna ráða hvort inntökubeiðni er tekin til greina. Hver sem fengið hefur inntöku í félagið skal þegar rita fullt nafn sitt og heimilisfang, einnig fæðingardag og ár undir lög félagsins. Enginn getur gengið úr félaginu nema hann sé skuldlaus við það. Félagar sem ekki hafa greitt gjöld sín fyrir aðalfund hafa með því fyrirgert réttindum sínum og skulu ekki vera taldið reglulegir meðlimir fyrr en þeir hafa gert félaginu full skil.

6. grein
Ársgjöld félagsmanna skulu ákveðin á aðalfundi hverju sinni og skulu greiðast eigi síðar en á aðalfundi næsta árs. Félagsmenn að 7 ára aldri greiða ekkert árgjald, en félagsmenn 7 – 13 ára greiða hálft árgjald.

7. grein
Lögmætur félagsfundur getur kjörið þá að heiðursfélögum er félagið vill veita sérstakan heiður fyrir vel unnin störf. Heiðursfélagar hafa öll réttindi en eru sjálfráðir um skyldur.

8. grein
Allir félagar skulu þúast.

9. grein
Stjórn félagsins skipa 5 menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Tveir skulu kosnir til vara og skal sá fyrr taka sæti í stjórn sem fleiri atkvæði hlýtur. Kosningin gildir til næsta aðalfundar. Formaður hefir aðal framkvæmdavaldið og skal hann gæta þess að allir félagsmenn gæti skyldu sinnar gagnvart félaginu. Hann skal boða til stjórnarfunda þegar nauðsyn krefur. Varaformaður skal aðstoða formann í öllu því nauðsynlegt er og taka sæti hans í forföllum. Ritari skal halda gerðabók, gefa út tilkynningar og rita annað það sem með þarf. Gjaldkeri skal veita móttöku öllum tekjum félagsins og greiða reikninga þess. Hann skal á hverjum aðalfundi flytja skýrslu yfir allt það fé sem hann hefur veitt móttöku eða innt af hendi og skulu reikningar félagsins koma á aðalfund endurskoðaðir af tveimur mönnum er kosnir skuli til þess til eins árs í senn. Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið.

10. grein
Innan félagsins starfa fjórar fastar nefndir, þ.e. íþróttanefnd, ræktunarnefnd, skemmtinefnd og sölunefnd sælgætis. Hlutverk þessara nefnda er:
a) Íþróttanefnd: Hún sér um framkvæmdir allar er lúta að íþróttamálum á vegum félagsins, s.s. íþróttaæfingar, kennslu og kappleiki. Hún sér um íþróttaáhöld og um íþróttavöll félagsins að öðru leyti en því er til ræktunarnefndar tekur. Nefndin skal flytja skýrslu um starfsemina á aðalfundi. Nefndina skipa 3 menn og 2 til vara.
b) Ræktunarnefnd: Hún sér um framkvæmdir allar er lúta að ræktun á vegum félagsins, þar með talið ræktun og hirðing íþróttavallar félagsins. Nefndin flytur skýrslu um starfsemina á aðalfundi. Nefndina skipa 3 menn og 2 til vara.
c) Skemmtinefnd: Hún sér um skemmtanir allar og dansleiki sem haldnir eru í nafni U.M.F.B. Nefndin skal flytja skýrslu um starfsemina á aðalfundi. Nefndina skipa 5 menn og 2 til vara.
d) Sölunefnd sælgætis: Á vegum félagsins skal rekin sælgætissala og skal sölunefnd sjá um rekstur hennar í nánu samstarfi við gjaldkera. Nefndin skal flytja skýrslu um starfsemina á aðalfundi. Nefndina skipa 3 menn og 2 til vara.

11. grein
Aðalfundur skal haldinn um áramót, hann skal boðaður með minnst 3 sólarhringa fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef hann er löglega boðaður og 20% reglulegra félagsmanna mæta. Ef ekki mæta 20% reglulegra félagsmanna skal boða til fundarins að nýju innan 10 daga og er hann þá lögmætur ef hann er boðaður með löglegum fyrirvara. Á aðalfundi skal kjósa stjórn félagsins og annað sem lög þess bjóða. Formaður skal kosinn fyrst, þá varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi og síðan 2 varamenn í stjórn. Enginn er löglega kosinn í stjórn nema hann hafi minnst 50% greiddra atkvæða á bak við sig. Tveir endurskoðendur skulu kosnir á aðalfundi félagsins. Þá skal og kosið í fastar nefndir. Kosningum í fastar nefndir skal haga þannig að félagsstjórn nefnir fyrsta mann og hann annan, þeir velja síðan saman aðra nefndarmenn. Nefndirnar velja sér 2 varamenn og kjósa sér formann þegar á aðalfundi.

12. grein
Félagið heldur félagsfundi sína eftir nánari ákvörðunum og fundarsköpum og eru þeir lögmætir ef 20% reglulegra félagsmanna mæta og fundirnir eru boðaðir með sólarhrings fyrirvara. Fundarstjóri skal í byrjun hvers fundar velja fundarskrifara. Fundarskrifari skal halda réttorða og óhlutdræga skráningu á öllu sem gerist á fundinum og afhenda ritara félagsins fundargerðina til innfærslu í gerðabók.

13. grein
Meðlimir annarra ungmennafélaga innan U.M.F.Í. hafa aðgang að fundum félagsins, málfrelsi og tillögurétt.

14. grein
Félagið gefur út blað er nefnist Huginn, minnst einu sinni á ári. Kýs aðalfundur 3 manna blaðstjórn er sér um útgáfu blaðsins. Blaðstjórn hefur frjálsar hendur með val á ritstjóra. Nefndin skal flytja skýrslu um útgáfuna á aðalfundi.

15. grein
Brot gegn lögunum skal stjórnin taka til úrskurðar. Endurtekin brot varða brottrekstri úr félaginu.

16. grein
Engu má breyta í lögum þessum nema á aðalfundi og þó því aðeins að 2/3 hlutar greiddra atkvæða lögmæts fundar séu breytingu fylgjandi.

17. grein
Með lögum þessum falla úr gildi lög U.M.F. Baldurs frá 3. janúar 1991.

Lög þessi eru samþykkt 17. janúar 1993