Kvenfélag Villingaholtshrepps var stofnað 27. október 1917 og voru stofnfélagar 16.  Samkvæmt fyrstu lögum , þá var tilgangur félagsins “ að hjálpa bágstöddum og veita eftirlit fátækum sængurkonum“.  Fjáröflun var í formi skemmtana með bögglasölu, hlutaveltu og basar, ásamt því að selja kaffiveitingar í Dælarétt árum saman.  Keypt var spunavél árið 1922 og starfrækt í 21 ár og létti það mjög vinnu á heimilunum.  Félagið styrkti barnaskólann til bókakaupa og einnig lestrarfélag sveitarinnar.  Félagið stóð ásamt SSK að stofnun sjúkrahúss Suðurlands og gaf t.d. öll gluggatjöld í það árið 1967.  Villingaholtskirkju hefur verið gefin messuskrúði og fermingarkyrtlar og lagt fram fé til endurbyggingar kirkjunnar.

Félagsheimilið Þjórsárver var tekið í notkun 1959 og hefur kvenfélagið séð að mestu um veitingar þar, en kvenfélagið bjó eldhúsið svo viðunandi væri og saumuðu konur gluggatjöld og dúka fyrir húsið og hefur það verið félagsaðstaða kvenfélagsins.  Kvenfélagið stóð fyrir jólaskemmtun og 17. júní hátíðahöldum ásamt Umf. Vöku.  Kvenfélagið stóð fyrir hinum ýmsu námskeiðum og garðyrkjukonur hjálpuðu við uppgræðslu á vermireitum.  Skemmtiferðir voru mjög snemma teknar upp, og farnar eins dags ferðir, t.d. í Þórsmörk nokkrum sinnum.  (heimildir úr bókinni Gengnar slóðir-saga SSK, grein rituð af Oddnýju Kristjánsdóttur, Ferjunesi)

Í dag er tilgangur félagsins „að stuðla að menningar og mannúðarmálum á félagssvæðinu“, og hefur tilgangur félagsins ekki breyst  að svo miklu leyti.  Kvenfélagið selur enn veitingar og styrkir Sjúkrahúsið, leikskólann Krakkaborg, Flóaskóla, Villingaholtskirkju og ýmsa einstaklinga sem eiga um sárt að binda.  Skemmtiferðir eru 2 á ári hverju, ein sumarferð og svo aðventuferð.  Námskeiðahald hefur gengið frekar brösuglega vegna áhuga /tímaleysis félagskvenna.  Síðustu ár hefur félagskonum fjölgað mjög og er það ánægjulegt og nauðsynlegt til að við getum haldið áfram okkar góða og fórnfúsa starfi.  Félagskonur eru 28 í dag, og sjáum við um hvers konar veitingasölu, útbjuggum uppskriftabók til að selja, héldum markað og tökum þátt í Fjöri í Flóa og allt er það til að afla fjár til styrktar þeim sem á þurfa að halda og þá helst hér innan sveitar.

Vetingar skal panta hjá formanni, Sólveigu Þórðardóttur í síma 869-6534/482-2553, eða á netfangið: skufslaekur2@gmail.com

Stjórn og varastjórn eru þannig skipaðar:

Sólveig Þórðardóttir Skúfslæk 2  formaður  (endurkjörin 2016)

Elfa Kristinsdóttir Rimum 6 ritari  ( frá 2015)

Bryndís Ólafsdóttir  Selfossi, gjaldkeri

varastjórn:

Sigrún Hrefna Arnardóttir Skyggnisholti  er varaformaður   (frá 2016)

Fanney Ólafsdóttir  Hurðarbaki er varagjaldkeri

Hallfríður Ósk Aðalsteinsdóttir  Lyngholti    er vararitari   (frá 2015)