12. mars, 2007

Umsögn um samgönguáætlun

Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps þann 7. mars s.l. var lagt fram erindi frá Samgöngunefnd Alþingis dags. 21. febrúar 2007 þar sem óskað er umsagnar sveitarfélagsins um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007-2018. Frestur til að skila inn umsögn og athugasemdum var til 27. febrúar 2007. Einnig er óskað umsagnar sveitarstjórnar við tillögu til þingsályktunar um samgönguáæltun fyrir árin 2007-2010 með sama umsagnartíma.

12. mars, 2007

Dagdvöl aldraðra

Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps 7. mars s.l. var lagt fram erindi frá framkvæmdastjóra Fjölskyldumiðstöðvar Árborgar dags. 23. febrúar 2007 þar sem Flóahreppi er boðið að nýta laus pláss í dagdvöl aldraðra fyrir íbúa.
Sveitarstjórn samþykkti aðild að dagdvöl aldraðra ef áhugi og/eða þörf er fyrir hendi.

12. mars, 2007

Gjalddagar fasteignagjalda

Á fundi sveitarstjórnar þann 10. janúar samþykkti sveitarstjórn að greiðslur fasteignaskatts sem eru 20.000 kr eða lægri greiðist á einum gjalddaga, 1. mars. Greiðslur sem eru 20.001 kr til 60.000 kr greiðast á þremur gjalddögum, 1. mars, 1. maí og 1. júlí. Greiðslur 60.001 kr. og hærri greiðast á fimm gjalddögum, 1. mars, 1. maí, 1.júlí, 1. september og 1. nóvember.
Eindagi var ákveðinn 30 dögum eftir gjalddaga.

12. mars, 2007

Mötuneyti grunn- og leikskóla

Sveitarstjórn hefur samþykkt að lækka fæðiskostnað um leik- og grunnskóla vegna lækkunar á virðisaukaskatti matvælum úr 14% í 7%.

12. mars, 2007

Þriggja ára fjárhagsáætlun Flóahrepps

Fyrri umræða um 3. ára fjárhagsáætlun Flóahrepps fór fram á fundi sveitarstjórnar 7. mars s.l.. Rætt var um áherslur í framkvæmdum næstu árin. Sveitarstjórn samþykkir að leggja áherslur á veitur og viðhald mannvirkja sveitarfélagsins og skoða hugsanlega uppbyggingu leikskóla og skóla með tilliti til væntanlegrar íbúarþróunar.

12. mars, 2007

Skipulags-og byggingarfulltrúi Flóahrepps

Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps þann 7. mars s.l. var lagður fram undirskriftalisti dags. 28. febrúar 2007 þar sem fyrirhuguðum breytingum á skipulags-og byggingareftirliti í Flóahreppi er mótmælt.

28. febrúar, 2007

Gjaldskrá leikskóla

Á fundi sveitarstjórnar 7. febrúar var samþykkt að hækka gjaldskrá og fæðiskostnað í leikskólanum Krakkaborg.

Hækkun á gjaldi fyrir börn 9 mánaða til 2 ára verður í þremur áföngum, 20% hækkun 1. apríl 2007, 20% hækkun 1. september 2007 og 10% hækkun 1. febrúar 2008 eða alls 50% hækkun. Þetta er þjónusta sem er yfirleitt ekki í boði á leikskólum og er kostnaðarsöm þar sem hver starfsmaður má einungis annast 4 börn en til samanburðar má hver starfsmaður annast um 8 börn á eldri deildum. Þar sem þjónusta á borð við þessa er veitt, er verð 50% hærra fyrir þennan aldurshóp.

25. febrúar, 2007

Skipulags-og byggingarmál

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur samþykkt samstarf við uppsveitir Árnessýslu um skipulags-og byggingarmál en þar er rekið öflugt starf á þessu sviði. Kostnaður við embættið verður greiddur með tekjum þess, þ.e. reiknað er með að málaflokkurinn standi undir sér en falli til kostnaður við endanlegt uppgjör hvers árs, greiðist hann í hlutfalli við fjölda teikninga (25%), fjölda byggingarleyfa (25%) og fjölda mála í skipulagsnefnd (50%).
24. febrúar, 2007

Kynningarátak um söfnun ónýtra rafhlaðna

Úrvinnslusjóður hrindir í dag af stað kynningarátaki vegna söfnunar á ónýtum rafhlöðum til úrvinnslu. Markmið átaksins er að fá fleiri til að safna og skila notuðum rafhlöðum, auka vitund almennings um mikilvægi þess að rafhlöðum sé skilað og vekja athygli á að einfalt sé að losna við þær. Þátttakendur í kynningarátakinu ásamt Úrvinnslusjóði eru Olís, Efnamóttakan, Gámaþjónustan og Hringrás.