27. júlí, 2007

Húsaleigubætur

Þeir aðilar sem hyggjast sækja um húsaleigubætur þurfa að skila umsókn á skrifstofu sveitarfélagsins á þar til gerðu eyðublaði og gildir umsóknin til áramóta hvers árs nema hjá nemendum en þeirra umsókn gildir jafnlengi og húsaleigusamningur. 
4. júlí, 2007

Vatnsmál

Sökum þurrka undanfarnar vikur er farið að örla á vatnsskorti í sveitarfélaginu.
Það er vinsamleg ábending til þeirra sem eru með sírennsli í úthögum fyrir hross að láta renna í ílát eða kynna sér aðrar lausnir til brynningar.
Sími hjá vatnsveitu er 862-6848
3. júlí, 2007

Aðalskipulagsvinna

Almennur kynningarfundur fyrir íbúa Flóahrepps á drögum að aðalskipulagi fyrrum Villingaholtshrepps var haldinn þann 25. júní sl. Á fundinum voru kynntar tvær tillögur, ein án hugsanlegrar Urriðafossvirkjunar og ein tillaga með virkjuninni. Sveitarstjórn mat það svo að eðlilegt væri að kynna báðar tillögurnar fyrir íbúum Flóahrepps til að fá fram sjónarmið þeirra. Á fundi sveitarstjórnar þann 2.júlí s.l. var lögð fram fundargerð af íbúafundinum.

28. júní, 2007

Leikskólinn á leið í sumarfrí !

Nú styttist í sumarfrí hjá okkur í leikskólanum.  Síðasti dagurinn fyrir frí er á morgun, föstudaginn 29.júlí.  Í tilefni af því er dótadagur í leikskólanum og þá geta börnin komið með dót að heimann í leikskólann.  Við munum elda pylsur í hádeginu og svo verður boðið upp á ís eftir matinn.
Þann 7.ágúst er starfsdagur hjá okkur og þann 8.ágúst mæta börnin. 
24. júní, 2007

Framkvæmdir í Flóahreppi

Gerður hefur verið verksamningur við Kríutanga ehf um viðgerð á þaki leikskólans Krakkaborgar samkvæmt tilboði í verðkönnun 23. maí 2007. Viðgerðin felur í sér rif og förgun á eldra þakjárni og þakköntum, setja nýtt járn á þak ásamt þakköntum, rífa stromp, athuga lekaskemmdir ofl.

24. júní, 2007

Samningur um dagdvöl aldraðra

Föstudaginn 22. júní s.l. var skrifað undir samkomulag milli Árborgar og Flóahrepps um dagdvöl aldraðra í Flóahreppi.

18. júní, 2007

Íbúafundur

Íbúafundur verður haldinn í Þjórsárveri 25. júní 2007 kl. 20.30 þar sem lögð verða fram drög að aðalskipulagi fyrrum Villingaholtshrepps til kynningar ásamt breytingum á aðalskipulagi Hraungerðishrepps og Gaulverjabæjarhrepps.

16. júní, 2007

Umsjónarmaður fasteigna

Nýr starfsmaður hóf störf hjá sveitarfélaginu í byrjun maí. Guðmundur Jón Sigurðsson var ráðinn sem umsjónarmaður fasteigna.

Hann sinnir hinum ýmsu verkefnum, s.s. húsvörslu í Flóaskóla og Krakkaborg, hefur umsjón með viðhaldi mannvirkja og eigna sveitarfélagsins og sér um unglingavinnuna.

Guðmundur er lærður rafvirki og er búsettur á Selfossi. 
16. júní, 2007

Unglingavinnan

Krakkarnir í unglingavinnunni hafa undanfarna viku verið að slá og snyrta til við Félagslund og Gaulverjaskóla.

Vikuna 18.-21 júní verða þau í Þjórsárveri og Flóaskóla, vikuna 25.-28. júní í Þingborg. Þau munu verða við leikskólann eftir mánaðarmótin júní - júlí þegar sumarfrí hefjast þar.

Hér má sjá mynd af hluta hópsins. Þetta eru hressir krakkar og munu fleiri myndir birtast af þeim síðar.