Gerður hefur verið samningur við Birgi Örn Arnarson um grenjaleit og refaveiðar í Flóahreppi. Birgir hefur reynslu af grenjavinnslu í Ölfusi og Bláskógabyggð auk þess að hafa stundað vetrarveiði í 8 ár. Hann er umboðs-og innflutningsaðili á dýragildrum til minka-og refaveiða og hefur notið leiðsagnar í Bandaríkjunum við lagningu þeirra. Hann er félagi í Bjarmalandi, félagi atvinnuveiðimanna á ref og mink.
Birgir tekur að sér grenjavinnslu í Flóahreppi út grenjavinnslutímabilið eða til 31. júlí 2008. Óskað er eftir samráði og samvinnu við bændur og landeigendur í sveitarfélaginu. Þeir sem veitt geta upplýsingar um greni eða hafa séð til tófu í sveitarfélaginu, geta haft samband við Birgi í síma 891-8898 eða 482-2116.
Þeir íbúar sem orðið hafa fyrir tjóni og skemmdum á húsum sínum vegna jarðskjálftans 29. maí s.l., vinsamlegast komið upplýsingum um það á skrifstofu sveitarfélagsins í síma 482-3260 eða á netfangið floahreppur@floahreppur.is
Einnig er gott að fá vitneskju um ef miklar skemmdir hafa orðið á innanstokks - og lausafjármunum.
Það er mikilvægt að hafa þessar upplýsingar vegna skýrslugerðar um tjón í sveitarfélaginu fyrir almannavarnarnefnd.
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í morgun, 30. maí, tillögu dóms-og kirkjumálaráðherra, um að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra kæmi á laggirnar í samráði við dóms-og kirkjumálaráðuneytið tímabundinni þjónustumiðstöð fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda vegna jarðskjálfa á Suðurlandi 29. maí 2008.
Viðlagatrygging Íslands bætir tjón af völdum jarðskjálfta á húseignum og ennfremur á lausafé hafi eigendur tryggt það gegn bruna.
Tjónþolum er bent á að tilkynna tjón sitt til þess vátryggingafélags sem seldi því vátrygginguna. Matsmenn vátryggingafélaganna munu meta tjón á innbúi og lausafjármunum.