29. maí, 2008

Viðbrögð eftir skjálfta

Viðbrögð eftir jarðskjálfta

Á Selfossi hefur verið opnuð fjöldahjálparstöð í Sólvallaskóla.
Björgunarsveitir eru á ferðinni á skjálftasvæðinu. Landssamband björgunarsveita Landsbjörg hafa sent stjórnendur inn á jarðskjálftasvæðiðtil að styrkja svæði sem verst hafa orðið úti. Björgunarsveitir frá Klaustri til höfuðborgarsvæðisins. Auk þess hafa verið send tjöld og búnaður frá Suðurnesjum.

Ef verulegar skemmdir hafa orðið á húsum er nauðsynlegt að loka fyrir vatnsinntak og slökkva á aðalrofa í rafmagnstöflu. Athugið hvort hættuleg eða eldfim efni hafi hellst niður. Farið rólega út ef annar skjálfti verður, varist óðagot. Hlustið á útvarp þar sem allar tilkynningar um skjálftann ogönnur mikilvæg atriði verður útvarpað um leið og ástæða þykir. Klæðist hlífðarfötum og góðum skóm þar sem hlutir og glerbrot geta verið að falla eftir skjálftan. Athugið hvort nágrannar ykkar þarfnast hjálpar.

27. maí, 2008

Valgeir og Jón á Fjöri í Flóa

Tveir af gullbjörnum íslensks tónlistarlífs leiða saman hesta sína og hljóðfæri laugardagskvöldið 31. maí í félagsheimilinu Þingborg Flóahreppi. Stuðmaðurinn og söngvaskáldið Valgeir mundar rythmagítar sinn undir áheyrilegum slaghörpuleik Jóns Ólafssonar Bítlavinar og Nýdönskumanns með meiru. Saman ætla þeir að skapa óviðjafnanlega stemmningu þar sem létt spjall og ljúfar lagasmíðar eru í forgrunni.

Tónleikarnir hefjast kl. 21.30 og kostar 2000 kr. inn.

26. maí, 2008

Ungmennafélagið Vaka

Ungmennafélagið Vaka ætlar að standa fyrir kvöldvöku á Fjöri í Flóa, nánar tiltekið föstudagskvöldið 30. maí á útisvæðinu við Þjórsárver. Þar verður kveikt upp í grillum svo að fólk getur tekið með sér eitthvað gott á grillið til að snæða. Leikdeild Umf Vöku mun standa fyrir útileikhúsi og sýna leikverkið um hana Gilitrutt.

23. maí, 2008

Margt er sér til gamans gert…

Sjálfsagt hafa margir tekið eftir því síðustu daga að heimasíðan hefur ekki verið virk. Ástæðan er sú að óprúttnir aðilar úti í heimi hafa gert sér leik að því að vinna skemmdarverk á síðunni með fyrrgreindum afleiðingum.

Vonandi hefur nú tekist að koma í veg fyrir þennan skæruhernað en þjónustuaðilar hafa unnið hörðum höndum undanfarið við að uppræta og koma í veg slíka iðju.

23. maí, 2008

Áskorun til sveitarstjórnar

Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps 7. maí var lagður fram undirskriftarlisti 218 íbúa sveitarfélagsins með svohljóðandi áskorun:


“Við undirrituð íbúar í Flóahreppi skorum á sveitarstjórn Flóahrepps að endurskoða ákvörðun sína frá 35. fundi sveitarstjórnar 14.11.2007 um að setja Urriðafossvirkjun inn á aðalskipulag sveitarfélagsins. Að vel athuguðu máli teljum við að sveitarfélagið sé betur sett án virkjunarinnar.“

9. maí, 2008

Er verið að hreinsa til í garðinum ?

Kæru sveitungar.  Ef þið lumið á trjáafklippum, trjábolum eða öðru sniðugu, endilega hafið samband við okkur í leikskólanum Krakkaborg.  Við getum endurnýtt allt slíkt hér í leikskólanum í brenni, trjákurl, leikföng o.m.fl.  Eins vantar okkur gamla eldavél í "drullumallasvæðið" okkar.
Starfsfólk Krakkaborgar.
4. maí, 2008

Fjör í æðar færist…

Eins og fram hefur komið verður sveitarhátíðin Fjör í Flóanum haldin nú í lok mánaðarins, eða dagana 30. maí – 1. júní. Undirbúningur er í fullum gangi og verður margt á seyði.

Þar má nefna tvær málverkasýningar, aðra í Þjórsárveri en hina í Tré og list í Forsæti. Opið hús verður í íslenska bænum í Austur-Meðalholtum, hjá Jóhanni Helga og Co í Vatnsholti 2, í ferðamannafjárhúsi í Egilsstaðakoti, einnig í leikskólanum Krakkaborg og á skrifstofu Flóahrepps og e.t.v fleiri. Tónleikar með South River Band verða á laugardagskvöld.

30. apríl, 2008

Hestamannakaffi Umf. Baldurs

Hestamannakaffi Umf. Baldurs, sem frestað var í apríl, verður haldið í Þingborg laugardaginn 3. maí næstkomandi. Nú er um að gera að mæta í kaffi og sýna þá gæðinga sem fólk hefur alið í vetur og monta sig aðeins. Húsið opnar kl. 13:00 og stendur kaffið til 17:00.

Allir eru hvattir til að mæta, á hvaða fararskjótum sem er!!
Skemmtinefnd Umf. Baldurs

23. apríl, 2008

Íbúafjöldi í Flóahreppi

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands frá 1. apríl  er íbúafjöldi í Flóahreppi 585 talsins, 309 karlar og 276 konur.
Elsti íbúinn er 97 ára og 4 eru á fyrsta ári. 42 íbúar eru á aldrinum 1 árs til 5 ára, 94 á aldrinum 6-16 ára, 47 á aldrinum 17 til 20 ára og 398 á aldrinum 21-98 ára.
1. desember 2007 var íbúafjöldi 575 þannig að íbúum hefur fjölgað um tæp 2% á þremur mánuðum.