29. maí 2007

Vorhátíð Krakkaborgar

Á morgun miðvikudaginn 30.maí kl.16 verður vorhátíð hjá okkur í leikskólanum. Hátíðin fer fram í félagsheimilinu Þingborg. Börnin munu sýna leikþátt, elstu börn leikskólans fá útskriftarskjal frá leikskólanum, sýning verður á listaverkum barnanna, ljósmyndasýning frá liðnum vetri og foreldrafélag leikskólans býður upp á kaffi og kökur. Hvetjum alla til að mæta og ömmur og afa, frænkur, frændur og sveitungar eru einnig velkomin. 

Með góðum kveðjum.

Starfsfólk Krakkaborgar.

27. maí 2007

Æskan og ellin

Opið hús var í skrifstofu Flóahrepps föstudaginn 25. maí í tengslum við Fjör í Flóa.

Í tilefni dagsins fluttu kór leikskólabarna og kór eldri borgara, Hörpukórinn nokkur lög og má með réttu segja að æskan og ellin hafi þar sungið saman við góðar undirtektir.

27. maí 2007

Verðlaun fyrir byggðamerki

Tillögur að byggðamerkjum voru til sýnis á skrifstofu Flóahrepps í tengslum við Fjör í Flóa og voru verðlaun og viðurkenningarskjal afhent fyrir bestu tillöguna að mati sveitarstjórnar.

15. maí 2007

Samkomulag um námsvist

Fulltrúar Flóahrepps og Árborgar hafa nú skrifað undir samkomulag um námsvist í grunnskólum Árborgar og samkomulag um afnot af félagsmiðstöðinni Zelsius.

Með samkomulaginu skuldbindur Árborg sig til að veita nemendum 8. – 10. bekkja sem lögheimili eiga í Flóahreppi, námsvist í Vallaskóla.

14. maí 2007

Unglingavinna

Auglýst er eftir unglingum, 13 ára og eldri til vinnu í sumar í vinnuskóla sveitarfélagsins frá 11. júní til 19. júlí.

27. apríl 2007

Moltugerðarílát

Sveitarstjórn hefur samþykkt að veita 30 % afslátt af jarðgerðarílátum til íbúa sveitarfélagsins, þó ekki hærra en 5.000 kr. pr/ílát. Slíkt ílát kostar samkvæmt upplýsingum Íslenska Gámafélagsins 17.928 kr m/vsk til íbúa Flóahrepps og er hægt að panta það á skrifstofu sveitarfélagsins í síma 482-3260.

Vonir standa til að hægt verði að halda námskeið um moltugerð á næstunni.

26. apríl 2007

Viðgerð á þaki leikskóla

Flóahreppur auglýsir eftir aðila til að taka að sér viðgerð á þaki leikskólans Krakkaborgar.

Verkið þarf helst að framkvæma í júlí þegar sumarfríslokun er í leikskóla.

Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins í síma 482-3260 eða með tölvupósti, floahreppur@floahreppur.is fyrir 10. maí n.k. Þeim verður í kjölfarið send verðkönnunargögn.

18. apríl 2007

Framboðsfundur

Sveitarstjórn Flóahrepps stóð fyrir fundi 17. apríl s.l. með fulltrúum þeirra flokka sem staðfest hafa framboð í Suðurkjördæmi vegna komandi Alþingiskosninga. Þeir frambjóðendur sem mættu voru Guðni Ágústsson fyrir Framsóknarflokkinn, Árni Mathiessen fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Óskar Þór Karlsson fyrir Frjálslynda flokkinn, Ásta Þorleifsdóttir fyrir Íslandshreyfinguna, Björgvin G. Sigurðsson fyrir Samfylkinguna og Atli Gíslason fyrir Vinstri hreyfinguna, grænt framboð. Guðbjörg Jónsdóttir stýrði fundi.

4. apríl 2007

Hugmyndasamkeppni um byggðamerki

Flóahreppur, nýtt sveitarfélag sem varð til við sameiningu þriggja hreppa á síðasta ári, efnir til hugmyndasamkeppni um byggðamerki.

Byggðamerkið skal unnið í samræmi við reglugerð 112/1999 og hafa skírskotun til Flóahrepps.