15. júní, 2008

Velkomin í Flóahrepp

Sett hafa verið upp skilti við flestar leiðir inn í Flóahrepp eins og sjá má á mynd hér til hliðar.
Það var umsjónarmaður fasteigna sem hafði yfirumsjón með þeirri vinnu.
Á bakhlið skiltanna stendur Flóahreppur-góða ferð.
Þetta er afar vel heppnuð framkvæmd sem setur skemmtilegan svip á sveitarfélagið.

15. júní, 2008

Fræðslumál

Á fundi sveitarstjórnar 4. júní s.l. voru lagðir fram minnispunktar frá fundi fræðslunefndar Flóahrepps með sveitarstjórn 26. maí 2008 ásamt skýrslu fræðslunefndar um niðurstöður íbúafundar sem haldinn var um skólamál í Flóaskóla 17. apríl 2008.

Í ljósi niðurstaðna þeirrar skýrslu er það tillaga fræðslunefndar að unglingadeild verði stofnuð við Flóaskóla og að tillit verði tekið til þeirrar stækkunar í útreikningum og undirbúningi vegna frekari þróunar skólans.

15. júní, 2008

Rafmagn

Fjallað hefur verið um rafmagnsmál í Flóahreppi á nokkrum fundum sveitarstjórnar, þar á meðal á fundi 4. júní s.l.

Sveitarstjórn samþykkti þá að óska eftir tímasettri framkvæmdaáætlun frá Rarik um þriggja fasa rafvæðingu í Flóahreppi og ítrekaði bókun sína frá 27. febrúar s.l. um að lokið verði við lagningu og tengingu þriggja fasa rafmagns í öllu sveitarfélaginu sem allra fyrst. 

Jafnframt var lýst yfir vonbrigðum með að þeirri framkvæmd skuli ekki þegar vera lokið.

15. júní, 2008

Vatnsmál

Á fundi sveitarstjórnar 4. júní s.l. var lagt fram minnisblað frá fundi Odds Hermannssonar og Páls Imsland með sveitarstjóra og oddvita um vatnsvernd í landi Bitru og Hjálmholts.

Niðurstaða fundar var að Páli var falið að afla upplýsinga og gagna varðandi rannsóknir sem gerðar hafa verið undanfarin ár.

10. júní, 2008

Sorpmál

Sorpmál munu taka miklum breytingum á næstunni en Sorpstöð Suðurlands stefnir að því að loka urðunarsvæði sínu í Kirkjuferjuhjáleigu samkvæmt samningi við sveitarfélagið Ölfus, 1. desember 2009. Sorpstöðin hyggst fara í samstarf við Sorpu, Kölku á Suðurnesjum og Sorpurðun Vesturlands um lausnir í úrgangsmálum til ársins 2020. Hugmyndir eru um uppbyggingu aðalstöðva fyrir gasgerð/jarðgerð og brennslu á höfuðborgarsvæðinu og er Álfsnessvæðið talinn áhugaverðasti kosturinn fyrir slíka starfsemti. Móttöku og umhleðslustöðvar verði staðsettar í landshlutunum en sorpið síðan keyrt til frekari vinnslu/urðunar á Álfsnes.

9. júní, 2008

Nýr leikskólastjóri

Fanney Halldóra Kristjánsdóttir hefur verið ráðinn leikskólastjóri við leikskólann Krakkaborg. Fanney er menntaður leik- og grunnskólakennari og er í meistaranámi í menntunarfræðum. Hún hefur starfað sem grunnskólakennari á Neskaupsstað síðasta ár en áður starfaði hún sem leikskólakennari um nokkurra ára skeið.
Fanney mun hefja störf sem leikskólastjóri 5. ágúst n.k.
Alls bárust þrjár umsóknir um stöðu leikskólastjóra.
6. júní, 2008

Fréttatilkynning vegna grjóthruns

Almannavarnanefndir á jarðskjálftasvæðinu á Suðurlandi hafa látið meta hættu á grjóthruni í kjölfar jarðskjálftanna. Niðurstöður rannsókna eru þær að hætta á grjóthruni er talin hafa aukist á svæðinu kringum Hamarinn við Hveragerði, Reykjafjall og Ingólfsfjall. Almannavarnanefndir hvetja fólk til sýna sérstaka aðgát og vera ekki á ferð á umræddum svæðum að nauðsynjalausu.

6. júní, 2008

Grenjaskytta

Gerður hefur verið samningur við Birgi Örn Arnarson um grenjaleit og refaveiðar í Flóahreppi. Birgir hefur reynslu af grenjavinnslu í Ölfusi og Bláskógabyggð auk þess að hafa stundað vetrarveiði í 8 ár. Hann er umboðs-og innflutningsaðili á dýragildrum til minka-og refaveiða og hefur notið leiðsagnar í Bandaríkjunum við lagningu þeirra. Hann er félagi í Bjarmalandi, félagi atvinnuveiðimanna á ref og mink.
Birgir tekur að sér grenjavinnslu í Flóahreppi út grenjavinnslutímabilið eða til 31. júlí 2008. Óskað er eftir samráði og samvinnu við bændur og landeigendur í sveitarfélaginu. Þeir sem veitt geta upplýsingar um greni eða hafa séð til tófu í sveitarfélaginu, geta haft samband við Birgi í síma 891-8898 eða 482-2116.

5. júní, 2008

Opnun þjónustumiðstöðvar

Opnunartími þjónustumiðstöðva vegna jarðskjálfta

Ráðinn hefur verið verkefnastjóri við þjónustumiðstöðva vegna jarðskjálfta, Ólafur Örn Haraldsson.
Þjónustumiðstöðvar sem starfræktar eru í Tryggvaskála á Selfossi og í húsnæði Rauða krossins í Hveragerði verða opnar næstu daga sem hér segir: