26. september 2007

Sorpdagatal

Unnið er að gerð sorpdagatals fyrir Flóahrepp 2008 þar sem merktir eru þeir dagar sem sorphirða og plasthreinsun er í sveitarfélaginu.
Einnig verða gámasvæðin kynnt og sú þjónusta sem þar er boðið upp á og margt fleira sem viðkemur sorphreinsun og flokkunarmöguleikum.
Reiknað er með að sorpdagatali verði dreift í lok ársins til íbúa Flóahrepps. Einnig verður hægt að nálgast dagatalið á skrifstofu sveitarfélagsins í Þingborg.
19. september 2007

Fréttabréf

Fréttabréfið Áveituna sem dreift er um allt sveitarfélagið má nú nálgast hér til hliðar undir Áveitan.

Einnig er fréttabréfið Muninn sem ungmennafélagið Baldur gefur út aðgengilegt undir Mannlíf-UMF. Baldur.
15. september 2007

Réttardagur

Réttað var í Reykjaréttum í morgun, laugardaginn 15. september í kalsarigningu.
Færra var um tvífætlinga en oft áður sem má þakka eða kenna veðrinu, allt eftir því hvernig á það er litið.

15. september 2007

Mildi að ekki varð manntjón

Það má kallast mesta mildi að ekki varð manntjón þegar rúmlega 100 kindur drukknuðu í Kálfá á föstudagsmorgun.
Suðurglugginn fjallaði um málið á heimasíðu sinni.
http://www.sudurglugginn.is/Efni.asp?Skoda=Article&ID=1727
12. september 2007

Veitumál

Verkfræðingar frá VST á Selfossi eru að skoða veitumál í Flóahreppi þessa dagana.
Þeir voru fengnir til að gera úttekt á dreifikerfi kaldavatnsveitu með það í huga að forgangsraða framkvæmdum til lagfæringar og endurbóta á því.
12. september 2007

Fólksfjöldi

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni var fjöldi íbúa í Flóahreppi 561 í apríl síðastliðnum. 
Karlar voru 298 og konur 263.
Við stofnun Flóahrepps fyrir rúmu ári síðan voru íbúar um 526.
9. september 2007

Umhverfisverðlaun 2007

Umhverfisverðlaun Flóahrepps fyrir árið 2007 voru afhent föstudaginn 7. september.

Veitt voru verðlaun fyrir lögbýli og opinbera stofnun sem þóttu skara fram úr varðandi snyrtimennsku og góða umhirðu.

Bærinn Stóru Reykir fékk verðlaun sem snyrtilegasta lögbýlið og félagsheimilið Þjórsárver fékk verðlaun sem snyrtilegasta opinbera stofnunin.

9. september 2007

Gaulverjabæjarvegur

Á fundi sveitarstjórnar 5. september s.l. var eftirfarandi bókað:
Unnið er að langþráðri uppbyggingu vegar 33 í Flóahreppi frá Skipum að Gaulverjabæ. Allt stefnir í að ekki verði hægt að ljúka vegalagningunni í gegnum land Vestri-Loftsstaða.

20. ágúst 2007

Tré og List

19. ágúst var listagalleríið Tré og list formlega opnað við hátíðlega athöfn í Forsæti.
Það eru hjónin Bergþóra og Ólafur sem standa fyrir framtakinu en þau hafa breytt fyrrverandi fjósi í sérlega góða og skemmtilega aðstöðu til sýninga og kynningar á handverki og listmunum.
Meðal þess sem er til sýnis í Tré og list eru gömul verkfæri, ljósmyndir af veðurfari eftir Ólaf og síðast en ekki síst listmunir eftir Siggu á Grund.