Menntamálaráðherra mun á næstu vikum fara um landið og kynna nýja menntastefnu og ný lög um þrjú skólastig og menntun kennara. Fundaherferðin hófst með velheppnuðu Menntaþingi í Háskólabíói 12. september sem yfir 800 manns sóttu, hlýddu á kynningar á nýrri stefnu og tóku þátt í líflegum umræðum í málstofum.
Gengið hefur verið frá sölu á Gaulverjaskóla. Nýjir eigendur hyggjast bjóða upp á svefnpokapláss og aðra aðstöðu fyrir ferðamenn í húsnæðinu.
Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps þann 4.júní voru lagðir fram minnispunktar frá fundi fræðslunefndar Flóahrepps með sveitarstjórn sem haldinn var 26. maí 2008. Á fundinum var lögð fram skýrsla fræðslunefndar um niðurstöður íbúafundar sem haldinn var í Flóaskóla 17. apríl.
Í ljósi niðurstaðna þeirrar skýrslu var það tillaga fræðslunefndar að unglingadeild verði stofnuð við Flóaskóla og að tillit verði tekið til þeirrar stækkunar í útreikningum og undirbúningi vegna frekari þróunar skólans.
Fræðslunefnd fór þess á leit við sveitarstjórn að fyrsti árgangur 8. bekkjar við Flóaskóla verði starfræktur skólaárið 2009-2010.
Samþykkt hefur verið að gjald fyrir skólamáltíðir í Flóaskóla verði kr. 210 pr dag þá daga sem kennsla fer fram. Greitt verði fyrir 20 daga að meðaltali í hverjum mánuði. Gjaldskráin verður endurskoðuð tvisar á ári, í ágúst og febrúar með tilliti til breytinga á vísitölu neysluverðs.
Skólavistun er nú rekin í fyrsta sinn fyrir börn í 1.-4. bekk í Flóaskóla eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur og til kl. 17.00 alla þá daga sem kennt er.
Gjald fyrir skólavistun er kr. 350 pr dag. Veittur er 25% systkinaafsláttur.
Reglur og gjaldskrár eru aðgengilegar hér á heimasíðunni, stjórnsýsla, gjaldskrár og samþykktir.
Samkvæmt 18. gr. skipulags-og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum skal sveitarstjórn senda Skipulagsstofnun tillögu að aðalskipulagi til afgreiðslu innan átta vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir rann út.
Í ljósi þeirra mörgu athugasemda sem bárust vegna tillögu að Aðalskipulagi Flóahrepps 2006-2018 í fyrrum Villingaholtshreppi, telur sveitarstjórn Flóahrepps nauðsynlegt að taka sér lengri tíma til að yfirfara athugasemdirnar en þær átta vikur sem lögin gera ráð fyrir.
Stefnt er að því að taka tillöguna til seinni umræðu innan tveggja mánaða og að því loknu munu þeir aðilar sem gerðu athugasemdir við tillöguna fá senda umsögn sveitarstjórnar um athugasemdirnar.