27. nóvember 2007

Slys á Gaulverjabæjarvegi

Fyrir nokkrum dögum varð slys á vegkafla þeim sem skilinn var eftir við lagningu slitlags á Gaulverjabæjarvegi sl. sumar og haust.
Slysið varð með þeim hætti að bílstjóri missti stjórn á bíl sínum og velti á móts við bæinn Tungu þegar komið var út af malbikinu inn á malarvegskaflann sem var skilinn eftir.

26. nóvember 2007

Lausir tímar í Þingborg

Lausir tímar í félagsheimilinu Þingborg kl. 16:00 - 19:00, hentugir til íþróttaiðkunar og hvers sem er. Leitið nánari upplýsinga hjá húsverði í síma 691-7082.

17. nóvember 2007

Áskorun starfsmanna á Litla-Hrauni

Sveitarstjórn Flóahrepps styður hugmyndir starfsmanna á Litla-Hrauni heilshugar og tekur undir áskorun þeirra um uppbyggingu í fangelsismálum á Íslandi verði enn meiri á Litla-Hrauni en áætlanir ger ráð fyrir.

17. nóvember 2007

Háskólafélag Suðurlands

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur samþykkt tillögu stjórnar Atvinnuþróunarfélags Suðurlands um að eignarhlutur Flóahrepps í verkefnasjóði félagsins í lok árs 2007 verði lagður inn í væntanlegt Háskólafélag Suðurlands ehf. sem hlutafé og fagnar framtaki um háskólafélag.

17. nóvember 2007

Félagsþjónusta

Á fundi sveitarstjórnar 14. nóvember var staðfestur samstarfssamningur um sameiginlega félagsþjónustu í uppsveitum og Flóahreppi.
Fulltrúi Flóahrepps í félagsmálanefnd verður Guðrún Jónsdóttir á Sandbakka og varamaður Magnús Guðmundsson í Oddgeirshólum.
Sveitarstjórn fagnaði því að mikilvægur málaflokkur sé kominn í góðan farveg.
16. nóvember 2007

Álagning gjalda 2008

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur samþykkt að álagning fasteignagjalda fyrir árið 2008 verði óbreytt frá fyrra ári.
15. nóvember 2007

Aðalskipulag fyrrum Villingaholtshrepps

Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps þann 14. nóvember s.l. voru lagðar fram tvær tillögur að aðalskipulagi fyrrum Villingaholtshrepps, tillaga A og tillaga B sem kynntar voru á opnum fundi í Þjórsárveri 25. júní s.l.

Tillaga A gerir ráð fyrir hugsanlegri Urriðafossvirkjun en tillaga B gerir ekki ráð fyrir virkjun.

Á undanförnum mánuðum hefur sveitarstjórn Flóahrepps aflað sér upplýsinga og gagna um fyrirhugaða Urriðafossvirkjunar í Flóahreppi og hugsanlegar afleiðingar slíkra framkvæmda.

Á fundi sveitarstjórnar þann 2. júlí 2007 samþykkti sveitarstjórn að fresta ákvörðun um tillögu til auglýsingar að aðalskipulagi fyrrum Villingaholtshrepps þar til fyrir lægju nánari upplýsingar um áhættu af hugsanlegri Urriðafossvirkjun.

4. nóvember 2007

Ársþing SASS

Sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi eru uppteknir þessa dagana vegna ýmissa þinga og ráðstefna.
Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga var haldið 1. - 2. nóvember á Kirkjubæjarklaustri
þar sem fram fóru aðalfundir SASS, Atvinnuþróunarfélags Suðurlands, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Skólaskrifstofu Suðurlands og Sorpstöðvar Suðurlands.
Fjármálaráðstefna sveitarfélaga verður haldin í Reykjavík 5. - 6. nóvember.

28. október 2007

Þingmannafundur

Fulltrúar sveitarstjórnar Flóahrepps áttu fund með þingmönnum Suðurkjördæmis í Vík í Mýrdal föstudaginn 26. október.
Samkvæmt áætlun átti sveitarstjórn að hitta þingmenn í Þorlákshöfn fimmtudaginn 25. október en sökum áður skipulagðrar ferðar sveitarstjórnar um Flóahrepp var ákveðið að fara til Víkur og funda ásamt sveitarstjórnarmönnum Mýrdalshrepps með þingmönnum.