23. maí 2008

Margt er sér til gamans gert…

Sjálfsagt hafa margir tekið eftir því síðustu daga að heimasíðan hefur ekki verið virk. Ástæðan er sú að óprúttnir aðilar úti í heimi hafa gert sér leik að því að vinna skemmdarverk á síðunni með fyrrgreindum afleiðingum.

Vonandi hefur nú tekist að koma í veg fyrir þennan skæruhernað en þjónustuaðilar hafa unnið hörðum höndum undanfarið við að uppræta og koma í veg slíka iðju.

23. maí 2008

Áskorun til sveitarstjórnar

Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps 7. maí var lagður fram undirskriftarlisti 218 íbúa sveitarfélagsins með svohljóðandi áskorun:


“Við undirrituð íbúar í Flóahreppi skorum á sveitarstjórn Flóahrepps að endurskoða ákvörðun sína frá 35. fundi sveitarstjórnar 14.11.2007 um að setja Urriðafossvirkjun inn á aðalskipulag sveitarfélagsins. Að vel athuguðu máli teljum við að sveitarfélagið sé betur sett án virkjunarinnar.“

9. maí 2008

Er verið að hreinsa til í garðinum ?

Kæru sveitungar.  Ef þið lumið á trjáafklippum, trjábolum eða öðru sniðugu, endilega hafið samband við okkur í leikskólanum Krakkaborg.  Við getum endurnýtt allt slíkt hér í leikskólanum í brenni, trjákurl, leikföng o.m.fl.  Eins vantar okkur gamla eldavél í "drullumallasvæðið" okkar.
Starfsfólk Krakkaborgar.
4. maí 2008

Fjör í æðar færist…

Eins og fram hefur komið verður sveitarhátíðin Fjör í Flóanum haldin nú í lok mánaðarins, eða dagana 30. maí – 1. júní. Undirbúningur er í fullum gangi og verður margt á seyði.

Þar má nefna tvær málverkasýningar, aðra í Þjórsárveri en hina í Tré og list í Forsæti. Opið hús verður í íslenska bænum í Austur-Meðalholtum, hjá Jóhanni Helga og Co í Vatnsholti 2, í ferðamannafjárhúsi í Egilsstaðakoti, einnig í leikskólanum Krakkaborg og á skrifstofu Flóahrepps og e.t.v fleiri. Tónleikar með South River Band verða á laugardagskvöld.

30. apríl 2008

Hestamannakaffi Umf. Baldurs

Hestamannakaffi Umf. Baldurs, sem frestað var í apríl, verður haldið í Þingborg laugardaginn 3. maí næstkomandi. Nú er um að gera að mæta í kaffi og sýna þá gæðinga sem fólk hefur alið í vetur og monta sig aðeins. Húsið opnar kl. 13:00 og stendur kaffið til 17:00.

Allir eru hvattir til að mæta, á hvaða fararskjótum sem er!!
Skemmtinefnd Umf. Baldurs

23. apríl 2008

Íbúafjöldi í Flóahreppi

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands frá 1. apríl  er íbúafjöldi í Flóahreppi 585 talsins, 309 karlar og 276 konur.
Elsti íbúinn er 97 ára og 4 eru á fyrsta ári. 42 íbúar eru á aldrinum 1 árs til 5 ára, 94 á aldrinum 6-16 ára, 47 á aldrinum 17 til 20 ára og 398 á aldrinum 21-98 ára.
1. desember 2007 var íbúafjöldi 575 þannig að íbúum hefur fjölgað um tæp 2% á þremur mánuðum.
21. apríl 2008

Íbúafundur um fræðslumál

Fræðslunefnd Flóahrepps stóð fyrir íbúafundi í Flóaskóla fimmtudaginn 17. apríl.
Fundurinn var boðaður til að kalla eftir hugmyndum og fá álit þeirra sem búa í sveitarfélaginu á því hvernig skólamálum verði best hagað til langs tíma litið.
Flóahreppur er sívaxandi samfélag og það húsnæði sem nú hýsir starfssemi Flóaskóla og Krakkaborgar að verða of lítið.
Í þriggja ára fjárhagsáætlun Flóahrepps er gert ráð fyrir fjármunum til framkvæmda við leik-og grunnskóla og á íbúafundi var m.a. verið að leita eftir hugmyndum íbúa um hvernig þeim fjármunum verði best varið.
18. apríl 2008

Aldarafmæli

Ungmennafélagið Baldur hélt upp á 100 ára afmæli félagsins laugardaginn 12. apríl í félagsheimilinu Þingborg.

Boðið var upp á hátíðarkvöldverð, forrétt og aðalrétt, sem Veisluþjónusta Suðurlands hafði veg og vanda að með dyggri aðstoð félaga úr Ungmennafélaginu sem þjónuðu til borðs.

Hlín Pétursdóttir söng við undirleik Editar Molnár og félagar úr ungmennafélaginu Vöku fluttu leikþátt um Gilitrutt í bundnu máli.

Ungmennafélagið fékk margar góðar gjafir, m.a. færði kvenfélag Hraungerðishrepps félaginu spöng við hátíðarbúning ungmennafélagsins sem fjallkonan hefur klæðst 17. júní ár hvert, allt frá árinu 1963. Sveitarstjórn færði félaginu 500.000 kr. peningagjöf og Búnaðarfélag Hraungerðishrepps færði félaginu 300.000 kr.preningagjöf. Einnig komu fulltrúar ungmennafélagsins Vöku, ungmennafélagsins Samhygðar, HSK, UMFÍ færandi hendi ásamt fleiri góðum gestum sem færðu félaginu gjafir og fluttu því kveðjur.

Ungir sem aldnir áttu saman góða og hátíðlega kvöldstund sem var í alla staði vel heppnuð.

17. apríl 2008

Íbúafundur um skólamál

Fræðslunefnd Flóahrepps stendur fyrir íbúafundi fimmtudagskvöldið 17. apríl kl. 20:30 í Flóaskóla. Fundurinn er boðaður til að fá umræður frá íbúum sveitarfélagsins um mál sem tengjast uppbyggingu skólamála í Flóahreppi.