28. desember 2009

Akstur fyrir eldri borgara

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur samþykkt reglur um akstursþjónustu fyrir eldri borgara í Flóahreppi. Markmið með akstursþjónustunni er að gera eldri borgurum kleift að stunda dagdvöl á Selfossi í Grænumörk 5 og í Vinaminni sem er dagdvöl fyrir einstaklinga með heilabilunarsjúkdóma.
Reglurnar má nálgast á síðunni undir stjórnsýsla, gjaldskrár og samþykktir.
23. desember 2009

Fjárhagsáætlun 2010

Fjárhagsáætlun Flóahrepps fyrir árið 2010 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 16. desember. Gert er ráð fyrir 13,3 mkr í hagnað á árinu. Leiga eignarsjóðs hækkar um 7,84% frá fyrra ári og tryggingargjöld vegna launa í 8,6%. Ekki er gert ráð fyrir neinum launahækkunum á árinu. Heildarfjárfesting ársins er áætluð 100 mkr, þar af er gert ráð fyrir að Jöfnunarsjóður greiði rúmlega 36 mkr.

16. desember 2009

Frétt frá Markaðsstofu Suðurlands

Í september s.l. gaf Markaðsstofa Suðurlands út sameiginlegan landshlutabækling þar sem öll ferðaþjónustufyrirtæki eru grunnskráð, en það hafði ekki verið gert áður.

9. desember 2009

Hamarsvegur

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur enn og aftur skorað á Vegagerðina að sinna nauðsynlegu viðhaldi á Hamarsvegi (308) frá Félagslundi að Flóaskóla á næsta ári. Um slíkt viðhald hefur ekki verið að ræða um árabil.

9. desember 2009

Hundahald

Sveitarstjórn hefur sett samþykktir um hundahald í sveitarfélaginu. Það er gert m.a. til að hindra truflun af lausagöngu hunda og að þeir séu á skólalóðum á skólatíma en slíkt hefur borið við með slæmum afleiðingum.
Gert er ráð fyrir því að hundaeigendur skrái hunda sína á skrifstofu sveitarfélagins gegn mjög hóflegu gjaldi sem greiðist í eitt skipti.
Samþykktin er nú í formlegu ferli sem felst í umsögn Heilbrigðisnefndar Suðurlands og staðfestingu Umhverfisráðuneytis. Þegar því er lokið verður málið kynnt í Áveitu og á heimasíðu Flóahrepps fyrir íbúum.
2. desember 2009

Kveikt á jólatré við Flóaskóla

Miðvikudaginn 2. desember var kveikt á jólatré Flóaskóla.  Það var Sunna Skeggjadóttir, nemandi í 5. bekk, sem kveikti á trénu. 
1. desember 2009

Bakað og matreitt í 90 ár

Kvenfélag Villingaholtshrepps gaf á dögunum út uppskriftabókina Bakað og matreitt í 90 ár. Í bókinni má finna um 120 uppskriftir frá 25 konum félagsins, en einnig eru í bókinni nokkrar áratuga gamlar uppskriftir frá kvenfélagskonum fyrri ára.

30. nóvember 2009

Vegaxlir við Flóaveg

Eins og vegfarendur hafa tekið eftir, hafa vasar eða vegaxlir verið settar á tvo staði við Flóaveg, annars vegar við afleggjarann að Þingborg og hins vegar við afleggjarann að Langholti. Ekki náðist að klæða vasann á móts við Langholtsveg en stefnt er að því að gera það um leið og slitlag verður lagt á Langholstveginn næsta vor.

30. nóvember 2009

Bólusetningar

Bændur í Flóahreppi eru minntir á að láta bólusetja sauðfé sitt við garnaveiki.
Einnig eru íbúar minntir á að láta ormahreinsa hunda sína og ketti.