23. júní 2008

Ársreikningur 2007

Ársreikningur Flóahrepps fyrir árið 2007 var samþykktur af sveitarstjórn 19. júní s.l. að loknum tveimur umræðum.

Rekstarniðurstaða var jákvæð um rúmlega 56 milljónir.

23. júní 2008

Íslenskir búningar

Fjöldi manns mætti í afmælisveislu U.M.F. Samhygðar og Kvenfélags Gaulverjabæjarhrepps í Félagslundi, m.a. systurnar Unnur Stefánsdóttir og Kristín Stefánsdóttir frá Vorsabæ sem skrýddust íslenskum búningum, Unnur í upphlut og Kristín í peysufötum.

23. júní 2008

Afmælisveisla

Í tilefni af 100 ára afmæli Ungmennafélagsins Samhygðar og 90 ára afmælis Kvenfélags Gaulverjabæjarhrepps buðu félögin til veislu í Félagslundi 21. júní s.l.

16. júní 2008

Fundur með fjárlaganefnd

Sveitarstjórn Flóahrepps átti fund með fjárlaganefnd Alþingis miðvikudaginn 11. júní s.l. þar sem farið var yfir flest þau mál sem snerta fjármál sveitarfélagsins.
Fjárlaganefnd var á ferðalagi um Suðurland og hitti forsvarsmenn flestra sveitarfélaga.
15. júní 2008

Velkomin í Flóahrepp

Sett hafa verið upp skilti við flestar leiðir inn í Flóahrepp eins og sjá má á mynd hér til hliðar.
Það var umsjónarmaður fasteigna sem hafði yfirumsjón með þeirri vinnu.
Á bakhlið skiltanna stendur Flóahreppur-góða ferð.
Þetta er afar vel heppnuð framkvæmd sem setur skemmtilegan svip á sveitarfélagið.

15. júní 2008

Fræðslumál

Á fundi sveitarstjórnar 4. júní s.l. voru lagðir fram minnispunktar frá fundi fræðslunefndar Flóahrepps með sveitarstjórn 26. maí 2008 ásamt skýrslu fræðslunefndar um niðurstöður íbúafundar sem haldinn var um skólamál í Flóaskóla 17. apríl 2008.

Í ljósi niðurstaðna þeirrar skýrslu er það tillaga fræðslunefndar að unglingadeild verði stofnuð við Flóaskóla og að tillit verði tekið til þeirrar stækkunar í útreikningum og undirbúningi vegna frekari þróunar skólans.

15. júní 2008

Rafmagn

Fjallað hefur verið um rafmagnsmál í Flóahreppi á nokkrum fundum sveitarstjórnar, þar á meðal á fundi 4. júní s.l.

Sveitarstjórn samþykkti þá að óska eftir tímasettri framkvæmdaáætlun frá Rarik um þriggja fasa rafvæðingu í Flóahreppi og ítrekaði bókun sína frá 27. febrúar s.l. um að lokið verði við lagningu og tengingu þriggja fasa rafmagns í öllu sveitarfélaginu sem allra fyrst. 

Jafnframt var lýst yfir vonbrigðum með að þeirri framkvæmd skuli ekki þegar vera lokið.

15. júní 2008

Vatnsmál

Á fundi sveitarstjórnar 4. júní s.l. var lagt fram minnisblað frá fundi Odds Hermannssonar og Páls Imsland með sveitarstjóra og oddvita um vatnsvernd í landi Bitru og Hjálmholts.

Niðurstaða fundar var að Páli var falið að afla upplýsinga og gagna varðandi rannsóknir sem gerðar hafa verið undanfarin ár.

10. júní 2008

Sorpmál

Sorpmál munu taka miklum breytingum á næstunni en Sorpstöð Suðurlands stefnir að því að loka urðunarsvæði sínu í Kirkjuferjuhjáleigu samkvæmt samningi við sveitarfélagið Ölfus, 1. desember 2009. Sorpstöðin hyggst fara í samstarf við Sorpu, Kölku á Suðurnesjum og Sorpurðun Vesturlands um lausnir í úrgangsmálum til ársins 2020. Hugmyndir eru um uppbyggingu aðalstöðva fyrir gasgerð/jarðgerð og brennslu á höfuðborgarsvæðinu og er Álfsnessvæðið talinn áhugaverðasti kosturinn fyrir slíka starfsemti. Móttöku og umhleðslustöðvar verði staðsettar í landshlutunum en sorpið síðan keyrt til frekari vinnslu/urðunar á Álfsnes.