2. október 2008

Nýr húsvörður í Þjórsárveri

Ráðinn hefur verið nýr húsvörður í félagsheimilið Þjórsárver. Hann heitir Erling Sæmundsson og býr á Skálatjörn, Flóahreppi.
Erling er vélstjóri að starfaði sem slíkur þar til hann fluttist í Flóahrepp.
Hann hóf störf 2. október og er boðinn velkominn til starfa.
Tekið er á móti pöntunum á Þjórsárveri í síma 898-2554.
28. september 2008

Gjaldskrár fyrir mötuneyti og skólavistun

Samþykkt hefur verið að gjald fyrir skólamáltíðir í Flóaskóla verði kr. 210 pr dag þá daga sem kennsla fer fram. Greitt verði fyrir 20 daga að meðaltali í hverjum mánuði. Gjaldskráin verður endurskoðuð tvisar á ári, í ágúst og febrúar með tilliti til breytinga á vísitölu neysluverðs.
Skólavistun er nú rekin í fyrsta sinn fyrir börn í 1.-4. bekk í Flóaskóla eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur og til kl. 17.00 alla þá daga sem kennt er.
Gjald fyrir skólavistun er kr. 350 pr dag. Veittur er 25% systkinaafsláttur.
Reglur og gjaldskrár eru aðgengilegar hér á heimasíðunni, stjórnsýsla, gjaldskrár og samþykktir.

26. september 2008

Tilkynning vegna aðalskipulags Flóahrepps

Samkvæmt 18. gr. skipulags-og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum skal sveitarstjórn senda Skipulagsstofnun tillögu að aðalskipulagi til afgreiðslu innan átta vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir rann út.
Í ljósi þeirra mörgu athugasemda sem bárust vegna tillögu að Aðalskipulagi Flóahrepps 2006-2018 í fyrrum Villingaholtshreppi, telur sveitarstjórn Flóahrepps nauðsynlegt að taka sér lengri tíma til að yfirfara athugasemdirnar en þær átta vikur sem lögin gera ráð fyrir.
Stefnt er að því að taka tillöguna til seinni umræðu innan tveggja mánaða og að því loknu munu þeir aðilar sem gerðu athugasemdir við tillöguna fá senda umsögn sveitarstjórnar um athugasemdirnar.

22. september 2008

Minnisvarði afhjúpaður

Sunnudaginn 21. september s.l. var afhjúpaður í skógræktarreit Ungmennafélagsins Samhygðar við Timburhóla, minnisvarði um hjónin í Vorsabæ, Guðfinnu Guðmundsdóttur og Stefán Jasonarson.
Þau voru bændur í Vorsabæ í hálfa öld og Stefán var ötull í störfum fyrir mörg félagasamtök s.s. samtók sunnlenskra bænda, ungmennafélagshreyfinguna og umferðaröryggi.
17. september 2008

Skólakynning fyrir foreldra

Í kvöld, miðvikudagskvöldið 17. september, er skólakynning í Flóaskóla fyrir foreldra. Kynningin hefst kl. 20:30 - foreldrar eru hvattir til að mæta vel, kynna sér skólastarfið og hitta starfsfólk og aðra foreldra. Heitt á könnunni!
14. september 2008

Fjallkóngar

Fjallkóngar fyrstu leitar á Flóa-og Skeiðamannaafrétti eru Aðalsteinn Guðmundsson, Húsatóftum í Skeiða-og Gnúpverjahreppi og Ágúst Ingi Ketilsson, Brúnastöðum í Flóahreppi.
9. september 2008

Vika símenntunar

Fræðslunet Suðurlands stendur fyrir viku símenntunar dagana 22. - 28. september 2008.
Dagskráin verður auglýst í héraðsfréttablöðum og á heimasíðu Fræðslunetsins en umfjöllunarefni viku símenntunar verða m.a. fræðsluerindi um starfsánægju og starfsleiða.

8. september 2008

Kortasjá

Meðfylgjandi er linkur á svokallaða Kortasjá.
Með þessari kortasjá má skoða loftmyndir af landi sveitarfélaganna í uppsveitum Árnessýslu og Flóahreppi og er hægt að leita eftir heimilisföngum. 
Kortasjá Suðurlands

1. september 2008

Heimsókn frá Úganda

Sveitarstjóri og oddviti fengu á dögunum góðan gest í heimsókn, Moses Opio frá Úganda.
Hann stundar háskólanám og er að skrifa ritgerð um votlendi á Íslandi.