Dagur íslenskrar náttúru, 16. september 2021 var haldinn hátíðlegur í Flóaskóla á táknrænan hátt. Flóaskóli flaggaði í fyrsta sinn Grænfánanum sem er alþjóðlegt umhverfismenntaverkefni sem er rekið af Landvernd á Íslandi, en verkefnið fagnar 20 ára afmæli á hér á landi, skólaárið 2021 -2022.
Flóaskóli hlaut formlega staðfestingu á afmælisárinu á því að vera orðinn „Skóli á grænni grein“ eða Grænfánaskóli en undirbúningur hefur staðið í 3 ár. Afmælisárinu er fagnað sérstaklega með því að senda nemendum og starfsfólki skólanna afmælispakka sem er tileinkaður ákveðnu þema tengdu umhverfismálum í hverjum mánuði. Tengiliðir Flóaskóla í Grænfánaverkefninu eru þær Íris Grétarsdóttir og Hallfríður Aðalsteinsdóttir. Nemendur Flóaskóla sameinuðust við andyri skólans og flögguðu fánanum sínum eftir stutta dagskrá í tilefni dagsins. Að lokum fór hópurinn í Þjórsárver og þáði veitingar.
Bestu þakkir nemendur, starfsmenn og fulltrúi Landverndar fyrir fallega dagskrá.
Þess má einnig geta að Krakkborg er einnig „Skóli á grænni grein.
Ólöf Vala Heimisdóttur nemandi í 10. bekk Flóaskóla gaf okkur leyfi til þess að birta þetta frumsamda ljóð sem hún flutti við athöfnina.
Umhverfið
Hlustið á jörðina gráta hljótt
æpa á þá sem heyra
“þið verðið að gera eitthvað fljótt
ég get bara ekki meira”
Okkur er annt um umhverfið,
Þar undur leynast víða.
En vernda þarf einnig vistkerfið
ei sóðaskap má líða.
Ferðamátar menga svörð,
minnkum notkun bíla.
Þeir skilja eftir sviðna jörð
svo er af þeim fýla.
Skóli í Flóa grænn nú er
dregur fána að húni.
halda skal mikinn fögnuð hér
svo heyrist út að túni.
Höfundur: Ólöf Vala Heimisdóttir, 10. bekk.