Ljósleiðari um Flóahrepp - fréttir | Flóahreppur
14. nóvember, 2017

Ljósleiðari um Flóahrepp – fréttir

Fréttir af ljósleiðaraverkefni í Flóahreppi

Fimmtudaginn 9. nóvember s.l. staðfesti „Ísland ljóstengt“ móttöku á umsókn Flóahrepps um styrk til ljósleiðaravæðingar í Flóahreppi. Í umsókninni er gert ráð fyrir nokkrum áföngum.
Föstudaginn 10. nóvember barst staðfesting frá „Ísland ljóstengt“ á því að innsend gögn hefðu uppfyllt kröfur um skil vegna A-hluta 2018.

Nú í vikunni er áætlaður vinnufundur sveitarstjórnar Flóahrepps vegna lagningar ljósleiðara. Leitað var til Guðmundar Daníelssonar hjá Snerru ehf. sem hefur áralanga reynslu af sambærilegum verkefnum og mætir hann til fundarins og mun hann miðla af reynslu sinni.

Fyrir liggur að sveitarstjórn Flóahrepps þarf að taka ákvarðanir um fjömörg atriði varðandi þetta mikilvæga verkefni. Það er alveg ljóst að Ljósleiðari í Flóahreppi á eftir að bæta búsetuskilyrði á svæðinu, auka möguleika atvinnurekenda og jafnvel að hafa áhrif á fasteignaverð á næstu árum.

Það verður á hendi sveitarstjórnar Flóahrepps að ákveða útfærslu á framkvæmdinni í heild sinni og hafa samráð við íbúa vegna vinnu á vettvangi. Fyrir þarf að liggja fljótlega hvort stofnað verði um verkefnið sérstakt félag sem mun þá eiga og reka ljósleiðarann eða hvort gengið verði til samninga við aðra. Á borði sveitarstjórnar Flóahrepps verður einnig að taka ákvarðanir um fjármögnun, framkvæmdahraða, útboðsgögn og röðun á áföngum verkefnisins.

Verkefni næstu vikna eru því spennandi og tengjast þau einnig vinnu við fjárhagsáætlanagerð áranna 2018 – 2021.

Sveitarstjóri Flóahrepps