Margar góðar hugmyndir frá íbúum Flóahrepps varðandi skólamál.
19. maí síðastliðinn stóð skólaráð Flóaskóla fyrir íbúafundi um málefni skólans. Þrátt fyrir sauðburð og aðrar annir í sveitum landsins var fundurinn líflegur og góður. Fundurinn var með því sniði að fundargestir tóku virkan þátt í fundinum. Þau mál sem tekin voru fyrir voru meðal annars skólareglurnar en nýverið var skólareglunum komið fyrir á veggspjaldi sem foreldrar fengu afhent á foreldraviðtalsdegi í janúar. Ýmsar ábendingar komu upp á íbúafundinum varðandi skólareglurnar og hæst bar á því að ræða notkun nemenda á snjalltækjum á skólatíma, skiptar skoðanir voru á því hvort banna ætti tækin eða leyfa og ábyrgð foreldra var meðal annars rædd í því samhengi.
Skólalóðin var meðal umræðuefna fundarins og upp komu margar góðar hugmyndir varðandi hana. Almennt þótti aðstaðan góð en fram kom að gott mætti alltaf bæta og fundargestir vildu jafnvel sjá meira gróðursett á holtinu til að mynda betra skjól. Það sköpuðust umræður um hvort það ættu að vera fleiri leiktæki eða færri á skólalóðinni og hvort við gætum notað náttúruna okkar og umhverfi betur. Einnig var bent á þætti er varða öryggi á skólalóðinni t.d varðandi hindranir á milli leikvallar og bílastæðis og gervigrasvallar og bílastæðis en eins og málin eru núna þá er óhindrað aðgengi barna að bílastæðum.
Fram kom einnig sú hugmynd að fá inn fjölbreyttar kynningar á starfsvali, meðal annars með því að fá inn fyrrum nemendur eða foreldra til að kynna störf sín og menntun. Sú hugmynd fékk góðan hljómgrunn og væri áhugavert að framkvæma á komandi skólaárum. Einnig var rætt um fjölda viðburða á vegum skólans og skiptar skoðanir voru á því hvort þeir væru hæfilegir, of margir eða jafnvel of fáir. Umræður sköpuðust um foreldrasamskipti og hvað foreldrar gætu gert til að efla samskipti sín á milli.
Fundinn sóttu bæði foreldrar og aðrir íbúar hreppsins og skólaráð þakkar þátttakendum fyrir góða vinnu í þágu skólans. Stjórnendur skólans munu nota efni og ábendingar fundarins til hliðsjónar við skipulagningu næsta skólaárs sem og að vinna tillögurnar áfram.