Leikskólinn Krakkaborg - nýji hlutinn. Ljósmynd MHH.
Krakkaborg opnar í nýju húsnæði
Dagur leikskólans var haldinn hátíðlegur í Krakkaborg um leið og leikskólinn opnaði formlega í nýju húsnæði.
Gerður var samningnur við JÁVERK á Selfossi um uppbygginguna sem að allra mati hefur tekist einstaklega vel. Leikskólinn er þriggja deilda og rúmar tæplega 60 börn. Jóna Björg Jónsdóttir leikskólastjóri ávarpaði gesti og bauð þá velkomna um leið og hún afhenti sveitarstjóra Flóahrepps fyrsta eintakið af nýrri skólanámsskrá. Heimir Már Bjarkason fulltrúi JÁVERK, færði leikskólanum 75.000 kr að gjöf frá fyrirtækinu, sem ætlaðar eru til leikfangakaupa. Nemendur í Krummadeild og Ugludeild sungu nokkur lög undir stjórn Hallfríðar Aðalsteinsdóttur aðstoðarleikskólastjóra. Oddviti Flóahrepps Árni Eiríksson og sveitarstjóri Eydis Þ. Indriðadóttir færðu leikskólanum blómaskreytingu sem fulltrúar elsta árgangsins í skólanum tóku á móti. Gestir opnunarhátíðarinnar tóku síðan þátt í starfinu á hinum ýmsu stöðvum leikskólans og má á einni af myndunum sem teknar eru af Magnúsi Hlyn Hreiðarsyni, sjá Margréti á Syðra Velli og Kristínu í Gaulverjabæ, æfa sig með penslana í listasmiðjunni. Gestir nutu veitinga sem voru bornar fram að kvenfélagskonum í Kvenfélagi Hraungerðishrepps. Til hamingju, nemendur og starfsmenn Krakkaborgar og íbúar í Flóahreppi með daginn.