Samhliða sveitarstjórnarkosningum þann 31. maí næstkomandi mun íbúum Flóahrepps gefast kostur á að taka þátt í ráðgefandi skoðanakönnun um sameiningarmál. Ekki er um íbúakosningu að ræða heldur er verið að kanna hug íbúa til sameiningarmála.
Spurningin sem lögð verður fyrir er svohljóðandi:
Vilt þú að Flóahreppur sameinist öðru sveitarfélagi eða sveitarfélögum?
□Já
□Nei
Ef já, hvaða sameiningarkost telur þú vænlegastan? Merktu við einn valkost:
□Sameining Flóahrepps og Uppsveita Árnessýslu í eitt sveitarfélag. ( Flóahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur).
□Sameining Flóahrepps og Árborgar.
□Sameining Árnessýslu utan Árborgar. (Flóahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hveragerði og Sveitarfélagið Ölfus).
□Sameining allra sveitarfélaga í Árnessýslu. (Flóahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Árborg, Hveragerði og Sveitarfélagið Ölfus).
□Sameining allra sveitarfélaga á Suðurlandi í eitt sveitarfélag. (Árnessýsla, Rangárvallasýsla, Austur-Skaftafellssýsla, Vestur-Skaftafellssýsla, Vestmannaeyjar).
Þeir sem kjósa að taka þátt í skoðanakönnuninni þurfa fyrst að svara fyrri spurningunni játandi til að geta svarað hinni síðari.
Ef sagt er nei við fyrri spurningunni er þátttöku í skoðanakönnuninni þar með lokið.
Ef skoðaðir eru einstaka sameiningarkostir eru helstu rökin fyrir þeim þessir:
a) Sameining Flóahrepps og Uppsveita Árnessýslu í eitt sveitarfélag. Flóahreppur á í samstarfi við Uppsveitir Árnessýslu um skipulags- og byggingarmál og velferðarmál.
b) Sameining Flóahrepps og Árborgar. Flóahreppur á í samstarfi við Árborg um kaldavatnsveitu í sveitarfélögunum. Einnig er samvinna í tengslum við grunnskóla sveitarfélaganna og málefni aldraðra.
c) Sameining Árnessýslu utan Árborgar. Flóahreppur á í samstarfi við sveitarfélög í Árnessýslu utan Árborgar um sameiginlega skóla- og velferðarþjónustu.
d) Sameining allra sveitarfélaga í Árnessýslu. Sveitarfélögin í Árnessýslu hafa í gegnum tíðina unnið saman á vegum Héraðsnefndar Árnesinga. Þessi sveitarfélög reka saman söfn, tónlistarskóla og Brunavarnir ásamt ýmsum öðrum verkefnum.
e) Sameining allra sveitarfélaga á Suðurlandi í eitt sveitarfélag. Sveitarfélögin á Suðurlandi, frá Ölfusi og austur að Hornafirði hafa með sér þjónustu- og samstarfsvettvang í gegnum Samtök sunnlenskra sveitarfélaga – SASS. Í gegnum SASS eru margvísleg sameiginleg verkefni, s.s. í atvinnumálum, menningarmálum, almenningssamgöngum og fleira.
Sjá má frekari upplýsingar um sveitarfélögin á heimasíðum þeirra samanber neðangreint.
http://www.olfus.is/
http://www.hveragerdi.is/
http://www.hvolsvollur.is/
http://www.klaustur.is/
http://www.vestmannaeyjar.is/
http://www.hornafjordur.is/