Sveitarstjórn hefur samþykkt breytingu á 2. gr. reglna um hvatagreiðslur til íþrótta- lista- og tómstundaiðkunar á þann veg að börn og ungmenni 6-18 ára sem lögheimili eiga í Flóahreppi geti sótt um hvatastyrk vegna einkatíma í tónlistarnámi sem ekki er þegar niðurgreitt af sveitarfélaginu. Reglurnar í heild eftir breytingu:
Reglur um hvatagreiðslur til
íþrótta- lista- og tómstundaiðkunar
1. gr.
Markmið
Meginmarkmið með hvatagreiðslum er að auðvelda börnum og ungmennum úr Flóahreppi að sinna íþrótta- lista- og tómstundastarfi.
Hvatagreiðslum er ætlað að greiða niður æfingar- eða þátttökugjöld og auðvelda foreldrum/forráðamönnum barna/ungmenna að gera þeim kleift að stunda skipulagða íþrótta-lista- og tómstundaiðkun.
Greiðslur skulu að hámarki nema þeirri upphæð sem sveitarstjórn ákveður á hverjum tíma.
2. gr.
Skilyrði fyrir veitingu hvatagreiðslna
Foreldar/forráðamenn barna og ungmenna á aldrinum 6-18 ára sem lögheimili eiga í Flóahreppi geta sótt um hvatagreiðslur.
Skilyrt er að að um sé að ræða skipulagt starf sem stundað er undir leiðsögn þjálfara eða leiðbeinanda og nær yfir eina önn eða að lágmarki 10 vikur. Þetta á t.d. við um allt íþróttastarf sem stundað er á vegum viðurkenndra íþróttafélaga, dans í dansskólum, listgreinar, skátastarf og einkatíma í tónlistarnámi sem ekki er þegar niðurgreitt af Flóahreppi.
Tónlistarnám sem niðurgreitt er af Flóahreppi og líkamsræktarkort falla ekki undir niðurgreiðslu æfingagjalda.
3. gr.
Fylgigögn með umsókn
Staðfesting á greiðslu skal fylgja umsókn um hvatagreiðslur. Á greiðslukvittun skal eftirfarandi koma fram:
Nafn og kennitala félags
Dags. greiðslu
Æfingatímabil
Nafn og kennitala iðkanda
4. gr.
Greiðslur
Hvatagreiðslur geta orðið 10.000 kr. fyrir hverja önn eða að hámarki 20.000 kr. á ári fyrir hvern einstakling.
Upphæð styrks getur ekki orðið hærri en sem nemur æfinga/þátttökugjaldi viðkomandi íþrótta- eða tómstundagreinar.
Hvatastyrki er ekki heimilt að færa á milli ára. Styrkur fellur niður sé ekki um hann sótt á því ári sem iðkun fer fram á.
Styrkumsækjandi skal skila inn þar til gerðu umsóknareyðublaði ásamt greiðslukvittun til
skrifstofu Flóahrepps fyrir 1. maí fyrir hverja vorönn og fyrir 1. desember fyrir hverja haustönn. Styrkir verða greiddir út eigi síðar en 15. júní og 15. janúar ár hvert.
Flóahreppi 1. febrúar 2012 (Breytt 4. september 2013)
Margrét Sigurðardóttir, sveitarstjóri