Fyrsti viðburður í hinni árlegu Tónahátíð félagsheimilanna í Flóahreppi verður 6. október n.k. en þá munu Hlín Pétursdóttir Behrens, sópran, Hólmfríður Jóhannesdóttir, mezzósópran og Jón Sigurðsson píanóleikari verða með söngtónleika í Þjórsárveri kl. 20.30.
Þau hafa öll dvalið erlendis um lengri eða skemmtri tíma við nám og tónlistarstörf en starfa nú í Reykjavík. Tríóið var stofnað fyrir rúmu ári síðan og hafa þau m.a. komið fram á sumartónleikum á Austurlandi og í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar. Á efnisskránni eru aríur og dúettar, m.a. eftir Pál Ísólfsson, Henry Purcell, Johannes Brahms, W.A. Mozart og Georges Bizet. Einnig verða fluttir gamandúettar eftir Þórunni Guðmundsdóttur og Hildigunni Rúnarsdóttur ljóð eftir Davíð Þór Jónsson.
Miðaverð er kr. 2.000. Nánari upplýsingar í símum 692-8565, 691-7082 og 898-2554.
Laugardaginn 13. október verða haldnir tónleikar með hljómsveitinni Dirrindí í Félagslundi.
Dirrindí var stofnuð árið 1995 af Jónasi Má Hreggviðssyni og Guðmundi Þór Jóhannessyni. Markmiðið var strax að semja og flytja frumsamda tónlist og fljótlega var til safn úrvalskvæða um ýmis hugðarefni,vini, vandamenn og nærsveitunga. Árið 2009 voru svo öll herlegheitin gefin út á disknum Lóan er komin.
Dirrindí leikur bæði hrynfast karlrembuskotið rokk og léttleikandi gleðitóna sem nefnast einu nafni Flóarokk. Meðlimir Dirrindí eru Jónas Már Hreggviðsson, Guðmundur Þór Jóhannesson, Sigurður Óli Kristinsson, Ingólfur Arnar Þorvaldsson og Daníel Snorrason; allir nátengdir Hraungerðishreppi hinum forna.
Miðaverð er kr. 2.000. Nánari upplýsingar í símum 692-8565 og 691-7082.
Síðasti viðburður Tónahátíðar á þessu hausti verður auglýstur síðar.