Miðvikudaginn 23. maí var sumrinu fagnað í leikskólanum Krakkaborg í Flóahreppi um leið og elstu börnin voru útskrifuð.
Hátíðin, sem er samstarfsverkefni leikskólans og foreldrafélagsins, tókst í alla staði vel og veðrið lék við okkur. Margt var gert til skemmtunar og áður en hátíðin hófst formlega var farið í vina- og kærleiksgöngu undir föstum trommutakti. Elstu börn leikskólans bjuggu til Krakkaborgarfána með mynd af merki skólans fyrir þessa hátíðargöngu. Regnbogakór Krakkaborgar sló í gegn með sérlega fallegum söng en þau sungu m.a. lögin Rósina og Viki vaka. Því næst var hin hefðbundna útskriftarathöfn en hvert barn fékk útskriftarplagg og möppu með völdum listaverkum þeirra. Einnig fengu þau geisladisk að gjöf frá leikskólanum en á honum voru um fimm til sjö hundruð myndir af þeim frá þeirra leikskólagöngu. Að því búnu mætti Ingó veðurguð á svæðið og skemmti hátíðargestum. Óhætt er að segja að Ingó hafið slegið rækilega í gegn þar sem börnin tóku hraustlega undir glöð og kát með komu hans. Eftir að Ingó hafði gefið eiginhandaráritanir var boðið uppá andlitsmálun og lítinn reiðtúr en það voru þau Christiane og Óli frá Egilsstöðum 1 sem sáu um það. Einnig voru grillaðar pylsur og boðið uppá svala.
Þess má geta að leikskólanum hefur nýlega borist veglegar gjafir bæði frá Kvenfélagi Villingaholtshrepps og einnig frá þeim Jóhanni og Margréti í Vatnsholti 2 en þau reka þar glæsilega ferðarþjónustu. Kristín frá Hurðarbaki gaf leikskólanum vinnu sína en hún saumaði gardínur og púðaver fyrir leikskólann. Við þökkum þeim öllum kærlega fyrir þessar góðu gjafir. Einnig hafa hin ýmsu félagasamtök stutt dyggilega við bakið á starf leikskólans í gegnum tíðina.
Á þessari stundu er mér efst í huga þakklæti til allra þeirra sem sem að leikskólasamfélaginu hafa komið með einum eða öðrum hætti. Ég vil því nota tækifærið og þakka þeim fyrir óeigingjarnt og gott samstarf og þann hlýhug og stuðning sem okkur í leikskólanum er sýndur sem er ómetanlegur. Það eru sannkölluð forréttindi að búa í samfélagi sem einkennist af hlýjum hug og stuðningi. Við getum svo sannarlega öll verið stolt af leikskólanum okkar.
Að lokum minni ég á að fjölskyldu- og menningarhátíðin Fjör í Flóa verður haldin helgina 1. – 3. júní. Af því tilefni bjóðum við í Krakkaborg ykkur í heimsókn í leikskólann en það verður opið hús hjá okkur föstudagsmorguninn 1. júní frá kl. 10:00 – 12:00.
Sumarkveðja,
Karen Viðarsdóttir