Í dag, 6. febrúar, er dagur leikskólans í öllum leikskólum landsins en einmitt þennan dag, árið 1950 stofnuðu leikskólakennarar fyrstu samtök sín.
Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Menntamálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtöks heimilis og skóla.
Í tilefni dagsins eru deildarstjórar allra deilda búnir að safna saman nokkrum gullkornum frá börnunum sem hægt er að sjá á veggjum leikskólans. Hér fyrir neðan eru nokkur þeirra.
Nokkur börn voru í dýnuleik og eitt barnið var að reyna að ná sambandi við annað barn. Það gekk upp og ofan og loks heyrðist: „Hlustaru ekki einu sinni á fólk?“
Tvö börn voru saman í leik og þá heyrðist: „Mamma ég ætla að fara að skjóta í matinn“. Einn drengurinn segir við kennara: „Við vorum að skjóta stelpur“. Kennarinn var tilbúinn að segja eitthvað þegar hann bætir við: „Þær voru rjúpur!“
Dag einn er pasta í matinn í leikskólanum. Einn drengur horfir á pastað á disknum sínum og segir svo: „Pabbi minn segir að þetta sé ekki matur“.
Nokkur börn eru að leika sér í dúkkukróknum. Ein stúlka er búin að leggja á borð, kallar svo til hinna barnanna og segir: „Gjöriði svo vel, má ekki bjóða ykkur súkkulaðiköku og brennivín“?
Krakkarnir á Strumpadeild eru að syngja um Krummann á skjánum. Þegar lagið er búið heyrist í einu barni: „Afhverju eru þessir bóndar alltaf svona reiðir“?
Hádegismatur á Bangsadeild: Einn drengurinn borðar fisk og katöflur og fær rúgbrauð líka. Þegar hann er búin með ½ brauðsneið,
segir hann; ,,Viltu meiri brauðsneið elskan mín“ við einn kennarann.
Sama dag í hvíldinni segir hann; ,,Sofðu rótt elskan mín.“