Mikið fannfergi hefur verið í neðri hluta Flóahrepps undanfarnar vikur og nauðsynlegt hefur verið að hreinsa snjó nánast daglega af vegum. Hamarsvegur og Villingaholtsvegur, svokallaður partavegur, hafa orðið hvað verst úti en þar hefur ófærð skapast í ófá skipti.
Skafrenningur hefur verið mikill meðfram ströndinni og ekki þurft mikið til að ófærð myndist þegar snjóruðningar eru meðfram vegum. Að hluta er þetta vegna veðurskilyrða en að hluta til vegna þess hversu niðurgrafnir þessir vegir eru.
Á myndinni má sjá hvernig snjór hefur safnast við sorptunnur í nágrenni við Félagslund.