Nú þegar 10. bekk er kennt við Flóaskóla í fyrsta sinn koma niðurstöður samræmdra prófa sérlega vel út í þeim árgangi. Miðað við samanburðartölur á milli sveitarfélaga kemur Flóahreppur út með hæstu einkunn í íslensku og stærðfræði í 10. bekk og næsthæstu einkunn í ensku.
Tekið skal fram að skólar með færri nemendur en 11 í árgangi eru ekki teknir með í samanburðartölur. Vegna fámennis í 4. bekk og 7. bekk í Flóaskóla komast þeir bekkir ekki inn í samanburðinn en þess ber þó að geta að meðaltalseinkunnir í íslensku og stæðfræði í 7. bekk eru töluvert mikið yfir landsmeðaltali. Í 4. bekk er íslenskueinkunn við meðaltal yfir landið en í stærðfræði er okkar meðaltalseinkunn undir landsmeðaltali.
Skólastarf er aldrei hægt að meta út frá einum þætti. Í Flóaskóla eru nemendur sem hafa mikinn styrk á mismunandi sviðum. List- og verkgreinum hefur verið gert hátt undir höfði og margir sterkir íþróttamenn stunda nám við skólann. Enn aðrir nemendur hafa mikla og góða félagsfærni, eru góðir í samstarfi og geta sýnt samkennd, vináttu og virðingu.
Við erum ákaflega stolt af útkomu samræmdra prófa í skólanum okkar og ekki síður stolt af þróun skólans sl. ár og þeim styrk sem nemendur okkar sýna á fjölbreytilegan hátt.
-Skólastjóri.