Til upplýsinga vegna nýrrar vatnsveitu í Flóahreppi.
Til upplýsinga vegna nýrrar vatnsveitu í Flóahreppi.
Framkvæmdum vegna dæluhúsanna í Þingborg og á Neistastöðum er nú að fullu lokið og neðri hluti fyrrum Hraungerðishrepps fær vatn frá Árbæjarlindum. Vatnið fer að Þingborg eftir nýju aðveitulögninni og rennur þaðan eftir dreifikerfi sveitarfélagsins.
Svæðið sem um ræðir eru bæjir við Flóaveg að Kjartansstöðum, allir bæjir við Langholtsveg að Stóra Ármóti og bæjir við Gaulverjabæjarveg að Bár. Þetta eru þeir bæjir sem áður fengu vatn úr Neistastaðalindum.
Aðeins hefur orðið vart við grugg í vatninu í Langholtshverfi. Lögnin hefur verið skoluð út og Heilbrigðiseftirlitið tekið sýni úr vatninu til skoðunar. Niðurstöður verða birtar þegar þær liggja fyrir en ekki er reiknað með að hætta sé á ferðum vegna neyslu vatnsins heldur er fyrst og fremst um þrýstingsaukningu að ræða sem getur valdið þessu.
Ýmsar framkvæmdir tengdar vatnsveitunni eru á dagskrá á næstunni en þar má nefna viðgerð vegar frá Neistastöðum að dæluhúsinu þar, lagning vegar að Ruddakrókslindinni, bygging lokahúss við Ruddakrókslind og uppsetning dælu við Ruddakrók sem ætlað er að auka þrýsting á vatnsrennsli að Hróarsholti.
Framkvæmdum við aðveitustofn vatnslagnar í Árvegi, Selfossi er nánast lokið og áætlað er að framkvæmdum við aðveitustofn frá miðlunargeymi við Ingólfsfjall að Ölfusárbrú verði lokið 17. júní n.k.
Á næstunni er fyrirhugað að bjóða út framkvæmdir vegna dælustöðvar við Ingólfsfjall og frekari vatnsöflun með fyrirvara um að framkvæmdaleyfi frá sveitarfélaginu Ölfusi fáist.
Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hvenær þeim framkvæmdum lýkur en vonir standa til að það verði næstkomandi haust.
Þar til framkvæmdum er að fullu lokið vegna aðveitunnar og vatnsöflunar er reiknað með að unnt verði að notast við næturrennsli frá Árborg ef kemur til þurrka og minnkun verður á vatnsmagni í lindum Flóahrepps. Rekstraröryggi vatnsveitunnar í Flóahreppi á því að hafa aukist verulega með þeim framkvæmdum sem nú þegar er lokið.