Í hátíðamessu annan jóladag var nýtt orgel vígt í Villingaholtskirkju. Organistinn, Ingimar Pálsson las vígslutexta úr handbók kirkjunnar og sóknarpresturinn sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson fór með bæn og blessunarorð.
Í hátíðamessu annan jóladag var nýtt orgel vígt í Villingaholtskirkju. Organistinn, Ingimar Pálsson las vígslutexta úr handbók kirkjunnar og sóknarpresturinn sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson fór með bæn og blessunarorð.
Sr. Kristinn flutti einnig þakkir til organista, kórfólks og sveitunga. Ingimar stýrði söng kirkjukórsins og lék á hljóðfærið.
Við vígsluna voru fluttir hátíðasöngvar sr. Bjarna Þorsteinssonar ásamt hefðbundnum jólasálmum.
Um hljóðfærið.
Orgelið er þýsk framleiðsla af gerðinni Ahlborn. Hljóðfærið, sem búið er ýmsum tækninýjungum, hefur tvö hljómborð og fótpedal (geislapedal), 32 raddir og 500 combinasjonir. Orgelið hefur hlotið sérstaka viðurkenningu frá þýskum organistum og þekktum prófessorum í organleik t.d. prof. Hans Gebbard í Hamborg, Gunter Seggermann í Hamborg og prof. dr. Frank–‐Harald Gress í Dresden. Orgel sem þetta hentar sérstaklega vel í kirkjur sem hafa takmarkað rými og talað hefur verið um að þau séu harmonium nútímans. Íslenskur innflytjandi hljóðfærisins er Sverrir Guðmundsson organisti. sverrir@tolvubondinn.is
Fjármögnun.
Kirkjukór kirkjunnar, sem síðar sameinaðist kirkjukór Hraungerðiskirkju í Flóa fjármagnaði kaupin á orgelinu. Fyrir margt löngu stofnuðu kórfélagar sjóð til endurnýjunar á hljóðfæri kirkjunnar. Fólk lagði ætluð laun og annað fé til sjóðsins.
Seldur var broddur frá bændum og búaliði, basarsölur voru settar upp til fjáröflunar þar sem m.a. var selt handunnið prjónles og einnig bakkelsi frá kórfélögum og sóknarbörnum. Ónafngreindir kórfélagar og fleiri aðilar gáfu stórar peningagjafir til minningar um látna kórfélaga, ástvini og sveitunga. Sóknarnefndir kirkjunnar hafa séð um ávöxtun sjóðsins. Árangurinn er nú sýnilegur í formi orgelsins sem hefur hlotið vígslu til afnota í kirkjunni í þágu allra sóknarbarna og kirkjugesta.
TÓNLEIKAR.
Í framhaldi og beinum tengslum við orgelvígsluna verður boðið til tónleika í Villingaholtskirkju, þar sem hljómur orgelsins og raddfjölbreytni verða kynnt sérstaklega.
Tónleikarnir verða síðari hluta janúarmánaðar eða fyrri hluta febrúar. Valinkunnir organleikarar munu leika á orgelið. Einn þeirra er Haukur Guðlaugsson fyrrverandi söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar og verður hann sérstakur heiðursgestur tónleikanna. Á
tónleikunum mun Ólafur Sigurjónsson í Forsæti einnig leika á hljóðfærið en hann var organisti kirkjunnar fyrr á tímum og nemandi Hauks. Tónleikarnir verða auglýstir sérstaklega. Aðgangur er ókeypis og boðið verður til kaffisamsætis í Þjórsárveri að tónleikum loknum.
Myndir má sjá hér til hliðar í myndasafni undir Villingaholtskirkja, orgel.
(Frétt frá organista Villingaholtskirkju)