Umhverfisráðuneytið hefur staðfest samþykkt um hundahald í Flóahreppi.
Samþykktin gerir ráð fyrir því að íbúar skrái hunda sína á skrifstofu sveitarfélagsins og fái afhenta plötu með nafni hunds og símanúmeri eiganda. Skiptiborð skrifstofu er opið alla virka daga frá kl. 9:00-13:00, sími 480-4370. Hundaeigendur eru beðnir um að kynna sér samþykktina ásamt gjaldskrá en samþykktin er svohljóðandi í heild sinni:
Umhverfisráðuneytið hefur staðfest samþykkt um hundahald í Flóahreppi.
Samþykktin gerir ráð fyrir því að íbúar skrái hunda sína á skrifstofu sveitarfélagsins og fái afhenta plötu með nafni hunds og símanúmeri eiganda. Skiptiborð skrifstofu er opið alla virka daga frá kl. 9:00-13:00, sími 480-4370. Hundaeigendur eru beðnir um að kynna sér samþykktina ásamt gjaldskrá en samþykktin er svohljóðandi í heild sinni:
SAMÞYKKT
um hundahald í Flóahreppi.
1.gr
Hundahald í Flóahreppi sætir þeim takmörkunum sem fram koma í samþykkt þessari.
2. gr.
Hundahald í Flóahreppi er háð eftirfarandi skilyrðum:
a) Eigandi hunds skal láta skrá hann á skrifstofu sveitarfélagsins og fá þar afhenta plötu sem alltaf skal vera um háls hundsins. Fyrir þetta skal hann greiða leyfisgjald samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórn setur, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar, í samræmi við 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
b) Eigandi hunds skal ábyrgðartryggja sig hjá viðurkenndu tryggingafélagi fyrir hugsanlegu tjóni sem hundur hans getur valdið. Fyrir 1. maí ár hvert skal leggja fram staðfestingu þess að tryggingin sé í fullu gildi.
c) Hundur skal aldrei ganga laus á almannafæri, heldur vera í fylgd með einhverjum sem hefur fullt vald yfir honum. Eigi er leyfilegt að fara með hund inn í skólahús, opinberar byggingar, matvöruverslanir eða aðra staði þar sem matvæli eru höfð um hönd.
d) Eiganda eða umráðamanni hunds ber að öðru leyti að fara að lögum og reglum er hundahald varða, s.s. reglum um árlega hreinsun hunda í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti og reglugerð nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni. Fyrir 1. maí ár hvert skal leggja fram staðfestingu á því að hundur hafi verið hreinsaður. Ef það bregst getur sveitarstjórn látið hreinsa hundinn á kostnað eigandans.
e) Eigandi eða umráðamaður hunds ber ábyrgð á því að hundur hans raski ekki ró íbúa hreppsins og sé hvorki þeim né þeim sem um sveitarfélagið fara til óþæginda, með tilliti til hávaða, óþrifnaðar, eyðileggingar verðmæta eða slysahættu.
f) Hundar á lögbýlum mega ganga frjálsir á landareign eigenda sinna. Að öðru leyti skulu slíkir hundar háðir ákvæðum þessarar samþykktar.
3. gr.
Við brot á 2. gr. skal fjarlægja viðkomandi hund. Eigandi hundsins fær þá, ef um minniháttar brot er að ræða, tækifæri til að fá hundinn afhentan gegn greiðslu þess kostnaðar, sem á hann er fallinn, sbr. gjaldskrá sveitarfélagsins. Sé um að ræða alvarleg eða ítrekuð brot er viðkomandi hundur tekinn út af skrá og er leyfi viðkomandi til hundahalds afturkallað. Sé hunds ekki vitjað innan sjö daga frá því að eiganda var tilkynnt um handsömun hans má aflífa hundinn, enda sé eiganda gert ljóst hvað vanræksla á að vitja um hundinn getur haft í för með sér. Sveitarfélaginu er aldrei skylt að geyma skráðan hund lengur en tíu daga frá handsömun og er heimilt að láta aflífa hundinn að þeim tíma liðnum. Allur kostnaður við hundinn greiðist af eiganda.
Hættulega og óleyfilega hunda og þá hunda sem ganga lausir á almannafæri skal handtaka og færa í geymslu. Hundar sem verða uppvísir að árás á menn eða skepnur má lóga þegar í stað sbr. þó 8. gr. reglugerðar nr. 1077/2004.
Handsömun á óskráðum hundi skal auglýst. Sé hunds ekki vitjað innan 7 sólarhringa má láta aflífa hann. Komi eigandi hunds síðar í ljós er heimilt að krefja hann um greiðslu kostnaðar.
Sveitarstjórn er heimilt að afturkalla skráningu/leyfi til hundahalds telji hún þess það nauðsynlegt í þágu hollustuhátta og öryggismarkmiða.
4. gr.
Sveitarfélaginu er heimilt að innheimta gjald vegna kostnaðar sem hlýst af samþykkt þessari. Gjaldið skal ákveðið í gjaldskrá sem sveitarstjórn setur að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar, skv. ákvæðum 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Gjöld mega ekki vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits. Gjaldið skal innheimt í eitt skipti, við skráningu hunds. Í gjaldskrá skal einnig ákveðið handsömunar-, geymslu- og aflífunargjald, sbr. 3. gr. Sveitarstjórn skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda.
5. gr.
Um valdsvið, þvingunarúrræði og málsmeðferð fer samkvæmt VI. og VII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ef eigandi eða forráðamaður hunds vanrækir skyldur sínar eða brýtur ítrekað gegn ákvæðum samþykktar þessarar eða öðrum reglum sem gilda um hundahald getur sveitarstjórn bannað viðkomandi að halda hund og látið fjarlægja hundinn.
Brot gegn samþykkt þessari varðar sektum rúmist þau jafnframt innan refsiákvæða hlutaðeigandi laga, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri málsmeðferð sem boðin er í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
6. gr.
Framangreind samþykkt staðfestist hér með skv. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir til þess að öðlast gildi við birtingu.
Ákvæði til bráðabirgða.
Eigendur skulu láta skrá hunda sína innan sex mánaða frá því að samþykkt þessi tekur gildi. Sami frestur er veittur til skráningar nýrra hunda.
Gjaldskrá fyrir hundahald í Flóahreppi
1. gr
Gjald fyrir hvert skilti sem eigandi hunds fær við skráningu hans skal vera 1.500 kr. og greiðist við skráningu.
2. gr
Kostnaður vegna föngunar og vörslu hunda sbr. 3. gr samþykktar um hundahald í Flóahreppi ss. útkallskostnaður , bifreiðakostnaður, búrleiga og auglýsingar, skal
greiddur af hlutaðeigandi leyfishafa eða umráðamanni hunds. Föngunargjald, varsla og auglýsingargjald er 25.000 kr.
Að auki leggst á sólarhringsgjald, 2.000 kr. vegna dvalar við geymslu viðkomandi hunds. Ef hundur er handsamaður oftar en þrisvar sinnum á einu ári, þá á hundaeigandi eða umráðamaður hunds yfir höfði sér leyfissviftingu.
3. gr.
Gjaldskrá þessi er samin og samþykkt af sveitarstjórn Flóahrepps samkvæmt 25.gr laga nr.7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og samþykkt um hundahald í Flóahreppi til að öðlast gildi við birtingu.
Flóahreppi 2. desember 2009
Margrét Sigurðardóttir, sveitarstjóri