Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps 3. febrúar s.l. var tekið fyrir erindi Umhverfisráðuneytis dags. 29. janúar 2010 um aðalskipulag Flóahrepps 2006-2018.
Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps 3. febrúar s.l. var tekið fyrir erindi Umhverfisráðuneytis dags. 29. janúar 2010 um aðalskipulag Flóahrepps 2006-2018.
Í erindi kemur fram að ráðuneytið telji að synja beri staðfestingu á þeim hluta aðalskipulags Flóahrepps er varðar Urriðafossvirkjun. Einnig kemur fram að í ljósi meðalhófssjónarmiða verða aðrir hlutar aðalskipulagsins staðfestir þegar sveitarstjórn hefur sent ráðneytinu nýja skipulagsuppdrætti, útfærða í samræmi við framangreinda ákvörðun um að synja þeim hluta aðalskipulagsins staðfestingar er varðar Urriðafossvirkjun.
Sveitarstjórn Flóahrepps lýsir undrun sinni á synjun umhverfisráðherra á staðfestingu aðalskipulagsins og telur að rétt hafi verið staðið að gerð og samþykkt þess. Í ljósi þeirra röksemda sem ráðherra byggir synjun sína á vakna spurningar um hvort öll sveitarfélög á landinu sitji við sama borð þegar kemur að skipulagsmálum. Lengi hefur tíðkast að sveitarfélög víða um land hafi haft þann háttinn á að láta aðila sem óska eftir breytingum á deiliskipulagi og aðalskipulagi bera hluta af kostnaði sem hlýst af skipulagsvinnunni. Hefur þetta fram til þessa verið talið heimilt og ekki verið gerðar athugasemdir af hálfu ráðherra. Þá gerir sveitarstjórn alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð ráðherra. Bæði tók málið mjög langan tíma hjá ráðherra auk þess sem sveitarstjórn var ekki kynnt bréf og gögn frá aðilum, sem vísað er til í ákvörðun ráðherra en þetta eru bréf og gögn sem bárust ráðuneytinu eftir að lögformlegum athugasemdafresti var lokið.
Sveitarstjóra og oddvita er falið að skoða nánar í samráði við lögmann sveitarfélagsins þær leiðir sem færar eru í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin í málinu í kjölfar synjunar ráðherra á staðfestingu aðalskipulagsins.
Guðmundur Stefánsson sveitarstjórnarmaður var með viðbótarbókun, svohljóðandi:
Ég tel að aðalskipulagstillaga Flóahrepps sé ein tillaga, sem í heild sinni sé annað hvort lögmæt eða ólögmæt.
Skilyrt tilboð ráðherra um að staðfesta hluta skipulagstillögunnar, tel ég vera tilraun til íhlutunar í skipulagsvald sveitarfélagsins.
Ef skipulagstillagan er hlutuð í sundur er í raun um efnislega breytta aðalskipulagstillögu að ræða sem ég tel að þurfi skipulagslega málsmeðferð í sveitarfélaginu.
Að teknu tilliti til stöðu orkumála í veröldinni, þar sem hratt gengur á olíulindir heimsins og framgangur, kostnaður og umhverfisáhrif annara möguleika í orkuvinnlu er óviss, þá tel ég brýnt að ekki verði önnur uppbygging, sem krafist yrði bóta fyrir, á svæðinu við Urriðafoss, heldur verði hann tekinn frá til orkuvinnslu handa komandi kynslóðum í þeim orkusnauða heimi, sem bíður handan við hornið.