24. fundur haldinn 29. desember 2009 kl. 20:30 að Lambastöðum.
Mættir: Sigurður Guðmundsson, Hafsteinn Hafliðason og Almar Sigurðsson formaður sem ritar fundargerð.
1. Erindi frá Sveitastjórn þar sem óskað er eftir skriflegum rökstuðningi umhverfisnefndar á 2. lið í fundargerð 23. fundar, dags. 18. október 2009 sem er svohljóðandi:
Vatnsmál.
Lögð fram erindi frá sveitarstjóra dagsett 3. júlí og 9. október um vatnsmál.
Umhverfisnefnd undrast silagang og úrræðaleysi í því að fundin sé örugg leið til viðunandi vatnsöflunar fyrir íbúa og fyrirtæki í sveitarfélaginu.
Umhverfisnefnd furðar sig á því að þurfa að útskýra þennan lið skriflega fyrir sveitastjórn þar sem það á ekki að dyljast neinum að vatnsmál hafa verið í ólestri í sveitafélaginu undanfarin ár. Á síðasta sumri þurfti hluti íbúa að sjóða neysluvatn eða sækja það á flöskum á skrifstofu sveitafélagsins og vart getur það talist viðunandi lausn. Þá hafa matvælafyrirtæki í sveitafélaginu kvartað yfir auknum útgjöldum sökum lélegs neysluvatns.
Í stefnuskrá Þ listans fyrir síðustu kosningar var ein af megináherslum sú að gera tafarlausa úttekt á ástandi vatnsmála í sveitafélaginu og tímasetja framkvæmdir í samræmi við þá úttekt. Þetta hefur ekki gengið eftir og hefur raunin orðið sú að stefnt er í austur einn daginn og vestur þann næsta. Það er ljóst að núverandi kjörtímabili er að ljúka og enn er ekki búið að finna viðunandi lausn á vatnsmálum. Því er ekki hægt að segja annað en að um silagang og úrræðaleysi sé að ræða.
2. Önnur mál.
2. a) Fundargerðir sveitastjórnar.
Rætt um fundargerðir sveitastjórnar og þykir umhverfisnefnd innihald þeirra frekar rýrt oft á tíðum. Sem dæmi má nefna að á fundi sveitastjórnar þann 17. des. 2008 er svohljóðandi bókun í fundargerð:
Fundargerð fundar um vatnsveitumál dags. 8. desember 2008 lögð fram og staðfest.
Hvaða fundargerð er þetta sem verið er staðfesta? Hver skyldi hafa verið að funda og með hverjum á þessum fundi?
Aftur er sambærileg setning þann 4. febrúar 2009:
Fundargerð fundar um vatnsveitumál dags. 26. janúar 2009 lögð fram og staðfest.
Hver skyldi hafa verið að funda og með hverjum á þessum fundi? Hvað var sveitastjórnin að staðfesta?
Umhverfisnefnd skorar á sveitastjórn að rita nákvæmari fundargerðir en hún gerir og stuðla þannig að því að upplýsingar eigi greiða leið út í samfélagið. Íbúarnir geta þá tekið virkan þátt í upplýstri umræðu með hagsmuni sveitafélagsins að leiðarljósi.
2. b) Jóla- og nýárskveðja.
Umhverfisnefnd óskar öllum íbúum sveitafélagsins gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Hún þakkar fyrir ánægjulegtt samstarf á árinu sem er að líða.
Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 22:00