
Búið er tengja Vatnsveitu Flóahrepps við Vatnsveitu Árborgar, bæði við Selfoss og Stokkseyri. Með því fækkar notendum vatns úr Neistastaðalindum og Ruddakrókslind.
Urriðafosslindin hefur verið tekin í gagnið en dæla þar hefur ekki verið í lagi. Verið er að vinna að viðgerðum á henni og vonast er til að hún verði farin að skila fullum afköstum í kvöld, fimmtudag.
Einnig er verið að vinna í því að fá rafmagn að Samúelslind til að unnt sé að setja dælu þar.
Samstarf við Rangárþing ytra og Ásahrepp um sameiginlega vatnsöflun var því miður ekki framkvæmanlegt að sinni vegna bankahrunsins en ekki var séð fram á að unnt væri að fjármagna þá framkvæmd.
Þar sem Flóahreppur má engan tíma missa var farið í viðræður við Árborg um sameiginlega vatnsöflun en hún hafði farið út um þúfur í upphafi kjörtímabils þar sem ekki var talið að nægilegt vatn væri til í vatnslindum Árborgar. Verið er að vinna í því þessa dagana, samtenging veitna er hluti af þeirri vinnu og ef af samstarfi verður, mun ný lind verða virkjuð.
Vatnsmálin hafa verið í miklum ólestri undanfarin sumur, miklir þurrkar og lækkun grunnvatns gera það að verkum auk fjölgun notenda.
Vatnsnotendur í Flóahreppi eru vinsamlegast beðnir um að stilla vatnsnotkun í hóf eins og unnt er með því t.d að kynna sér lausnir til brynningar fyrir hross í úthögum.
Vonast er til að íbúar Flóahrepps þurfi ekki að upplifa vatnslitla sumarmánuði oftar.