Fjölskyldu- og menningarhátíðin Fjör í Flóa tókst einstaklega vel.
Út um alla sveit var stútfull dagskrá af menningu, skemmtun og leik og allir gátu fundið eitthvað við sitt hæfi.
Fjölskyldu- og menningarhátíðin Fjör í Flóa tókst einstaklega vel.
Út um alla sveit var stútfull dagskrá af menningu, skemmtun og leik og allir gátu fundið eitthvað við sitt hæfi.
Strax á föstudagsmorgun opnaði sveitabúðin Sóley. Þar var 15% afsláttur af öllum vörum alla helgina en verlsunin á 5 ára afmæli á þessu ári.
Einnig var opnað á föstudagsmorgun í Ullarvinnslunni Þingborg þar sem ljósmyndasýning var í anddyri hússins, grænmeti til sölu frá garðyrkjustöðinni Akri og ullarvörur og ýmislegt handverk til sölu.
Opið hús var í leikskóla og skrifstofu í Þingborg þar sem gestir gátu kynnt sér starfsemi, skoðað listaverk barna og ljósmyndir úr starfi.
Myndlistasýning Myndlistarfélags Árnessýslu var opnuð formlega kl. 16.00 á föstudeginum og fiðluhópur Maríu Weiss spilaði við opnun.
Um kvöldið var fjölskylduhátíð við Þjórsárver á vegum ungmennafélagsins Vöku. Kveikt var í kolum og hin stórskemmtilega reiptogskeppni var háð öðru sinni undir forystu tveggja vaskra kvenna, Elínar Bjarnveigar í Egilsstaðakoti og Ingibjargar á Langsstöðum. Þessum lið verður gerð betri skil á næstunni.
Laugardagurinn hófst með morgunmat í Félagslundi sem kvenfélag Gaulverjabæjarhrepps hafði veg og vanda af með stuðningi nokkurra fyrirtækja á Suðurlandi en þar má m.a. nefna Mjólkurbúið, Sláturfélagið, HP kökur og Guðnabakarí.
Það er skemmst frá því að segja að aðsókn var gífurlega góð, bæði heimamanna og gesta. Sannarlega skemmtilegt og vel heppnað og góður undirbúningur fyrir alla þá viðburði sem hægt var að sækja þann daginn í sérlega góðu veðri.
Kvenfélag Gaulverjabæjarhrepps var með sýningu á sparifötum barna fyrr og nú. Þær stóðu einnig fyrir flóamarkaði og kökubasar og sölubásar með ýmsu handverki voru á staðnum.
Opið hús var í Gaulverjaskóla sem nú er í eigu hjónanna Oddnýjar og Gests. Þar hefur verið unnið þrekvirki í andlitslyfingu eins húss en opnuð hefur verið ferðaþjónusta í gamla skólanum þar sem hægt er að velja á milli gistingar í handavinnustofunni, landafræðistofunni, bókasafninu eða stærðfræðistofunni og borða morgunmat í smíðaskúrnum. Þeir sem vilja kynna sér starfsemina betur er bent á tengla hér á síðu Flóahrepps.
Í Vallarhjáleigu mátti sjá safngripi, gamla traktora og nýuppgert gamaldags eldhús. Alls kyns listaverk úr steypu voru til sölu.
Engu líkara er en að fólki væri kippt inn í ókunnan ævintýraheim, svo skemmtilegt var að koma að Vallarhjáleigu og sjá hvað mikil hugmyndaauðgi og framtakssemi getur gert.
Að Brandshúsum 4, hjá Ragnari og Oddnýju, var opið hús í hænsnakofanum. Þar mátti sjá íslenskar landsnámshænur og unga, hvítar bréfdúfur, fasana og kornhænur að ógleymdri fallegustu hænu Íslands, Gunnhildi, sem spígsporaði um svæðið og vissi svo sannarlega af sér enda sannkölluð glæsidama þar á ferð.
Í Þjórsárveri var sýning á skírnarkjólum, allflestir saumaðir eða prjónaðir af konum úr sveitinni. Það er með ólíkindum hversu mikil listavinna býr að baki slíkri vinnu.
Nokkrir bútasaumsklúbbar sýndu einnig afrakstur vinnu sinnar í Þjórsárveri.
Í Ölvisholti var opið hús þar sem gestir gátu gengið um bruggverksmiðjuna og kynnt sér framleiðsluna undir leiðsögn.
Í gamla bænum að Ölvisholti var einnig hægt að sjá skammtagrindur fyrir hesta sem henta jafnt fyrir reiðhesta í lausagöngu sem og í stíum og einnig fyrir hross í útigangi. Nýjun þar á ferð sem ábyggilega á eftir að ryðja sér rúms.
Ferðamannafjárhúsið í Egilsstaðakoti var opið fyrir gesti og gangandi þar sem hægt var að kynna sér aðstöðuna og starfsemina.
Alla helgina var opið í Tré og list, Forsæti 3 þar sem sýndir voru munir tengdir sögu hagleiks og uppfinninga. Faðir Ólafs í Forsæti sem rekur listasmiðjuna ásamt Bergþóru konu sinni, var uppfinningamaður sem smíðaði öll sín verkfæri sjálfurr. Þau mátti m.a. sjá á sýningunni með ýmsum öðrum gripum og munum.
Opið hús var á verkstæði Ólafs á laugardaginn þar sem hann var við vinnu ásamt listakonunni Siggu á Grund. Þau hafa skapað í sameiningu fádæma grip, útskorinn ask sem þau kalla óð til handverksmenningar og sjá má í Tré og list. Askurinn sameinar í raun vinnu og lífsbaráttu karla og kvenna hér áður fyrr þegar konur sáu um að fæða og klæða en karlar smíðuðu öll áhöld og tæki. Mikið hagleiks-og listafólk þar á ferð sem gaman var að fylgjast með.
Á laugardag var einnig opnuð formlega málverkasýning Önnu Hrefnudóttur listakonu í Tré og list en Anna nefnir sýninguna „Kona“. Afar áhrifamikil sýning sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara en sýningin verður opin fram í miðjan júlí.
Við opnunina voru blústónleikar þar sem Garðar Harðarson lék á gítar og Þorleifur Guðjónsson spilaði á bassa.
Íslenski bærinn í Austur Meðalholum var opinn fyrir gesti og gangandi og boðið var upp á skoðun á gamla bænum og framkvæmdum á svæðinu. Ljóst er að um er að ræða dýrmæta varðveislu á menningarminjum og byggingarlist sem telja má að sé á hröðu undanhaldi í þekkingu núlifandi Íslendinga.
Á laugardagskvöldi var kvöldvaka í Þingborg. Meðal atriða þar var tenórsöngvarinn Eyjólfur Eyjólfsson. Einnig þau Eyrún Jónasdóttir, Hlín Pétursdóttir, Magnea Gunnarsdóttir og Stefán Þorleifsson sem fluttu létta söngdagskrá, hagyrðingar stigu á stokk og spurningakeppni var haldin meðal hinna fornu hreppa í Flóa. Það voru liðsmenn fyrrum Villingaholtshrepps sem höfðu betur í keppninni.
Á sunnudag hélt veislan áfram þar sem flestir viðburðir laugardagsins voru áfram til staðar. Félagsheimilið Þingborg bauð upp á atriði úr Sjóræningaprinsessunni þar sem sjóræningarnir Kapteinn Gulltönn og Rommsvelgur stýrimaður héldu áfram fjársjóðaleit sinni. Fyrir sýningu var fólk varað við að taka með sér gullmuni.
Alla helgina stóð yfir ratleikur um sveitarfélagið og verða úrslit birt á heimasíðunni innan skamms. Einnig verða myndir frá fjörinu settar inn fljótlega.
Hér hafa aðeins verið rakin lauslega helstu atriði helgarinnar en ótal margt annað var í boði s.s. kaffisala í félagsheimilum, skúlptúrar og handverkssýning í Þingborg. Einnig sýning á kettlingum, ungum og hvolpum í Þingborg ásamt handverksbingói sem kvenfélagið í Hraungerðishreppi stóð fyrir.
Reiðhjólakeppni á vegum ungmennafélagsins Baldurs og margt margt fleira var í boði.
Það er ljóst að hér er á ferðinni hátíð sem á eftir að vaxa og dafna um ókomin ár með sívaxandi aðsókn.