Ungmennafélagið Vaka ætlar að standa fyrir kvöldvöku á Fjöri í Flóa, nánar tiltekið föstudagskvöldið 30. maí á útisvæðinu við Þjórsárver. Þar verður kveikt upp í grillum svo að fólk getur tekið með sér eitthvað gott á grillið til að snæða. Leikdeild Umf Vöku mun standa fyrir útileikhúsi og sýna leikverkið um hana Gilitrutt.
Ungmennafélagið Vaka ætlar að standa fyrir kvöldvöku á Fjöri í Flóa, nánar tiltekið föstudagskvöldið 30. maí á útisvæðinu við Þjórsárver. Þar verður kveikt upp í grillum svo að fólk getur tekið með sér eitthvað gott á grillið til að snæða. Leikdeild Umf Vöku mun standa fyrir útileikhúsi og sýna leikverkið um hana Gilitrutt.
Einnig er ætlunin að blása glæður í forna aflraunakeppni og standa fyrir reiptogskeppni. Keppni í reiptogi var algeng á fyrri hluta síðustu aldar og átti Villingaholtshreppur hinn forni sterkt reiptogslið sem þótti með þeim allra hraustustu hér á landi.Á kvöldvökunni verður keppt milli tveggja liða. Hvert lið er skipað 8 einstaklingum og eiga a.m.k. tvær konur að vera í hvoru liði. Það lið sem fyrr vinnur tvo bardaga er sigurvegari. Búið er að ráða formenn liðanna og eru það heiðursmennirnir Stefán Geirsson og Trausti Hjálmarsson. Þessir kappar munu síðan afla sér liðsfélaga úr Flóahrepp. Einu skilyrðin eru að keppandi skuli eiga lögheimili og fasta búsetu í Flóahrepp og þurfa a.m.k. tveir keppendur hvors liðs að koma úr “gömlu hreppunum”.
Það er því óhætt að segja að þetta verður skemmtileg kvöldstund fyrir alla fjölskylduna. Heitt á kolunum, leiktæki fyrir börnin, útileikhús og síðast en ekki síst, æsispennandi reiptogskeppni þar sem kemur í ljós hver hreystimenni Flóahrepps eru. Vonumst til að sjá ykkur sem flest.