Íbúafundur var haldinn í Félagslundi í gær, fimmtudaginn 18. október, til kynningar á hættumati vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár.
Milli 50 og 60 manns voru samankomnir til að hlýða á framsögu Dóru Hjálmarsdóttur, verkfræðings hjá VST sem kynnti áhættumatið.
Íbúafundur var haldinn í Félagslundi í gær, fimmtudaginn 18. október, til kynningar á hættumati vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár.
Milli 50 og 60 manns voru samankomnir til að hlýða á framsögu Dóru Hjálmarsdóttur, verkfræðings hjá VST sem kynnti áhættumatið.
Í kynningu kom m.a. fram að matið felur í sér yfirferð á hönnunarforsendum vikjana, skoðun á staðháttum, jarðfræði svæðisins og flóðasögu með tilliti til mögulegra atburða sem mannvirkjunum getur stafað hætta af.
Einnig mati á líkum á atburðum, yfirferð á varúðarráðstöfunum, mati á líkum þess að mannvirkin verði fyrir tjóni, mati á hvaða afleiðingar það hefði í för með sér, samanburði við kröfur um öryggi sem gerðar eru og samanburði við áhættu sem til staðar er án mannvirkjanna.
Við hönnun stíflna og flóðvirkja er gert ráð fyrir því að þau standist svokallað þúsund ára flóð en það er flóð sem er svo stórt að það kemur eingöngu á þúsund ára fresti að meðaltali. Hönnun gerir ráð fyrir að stíflur standist 50% stærra flóð án rofs en hugsanlega með skemmdum. Einnig tekur hönnun mið af stærsta líklega jarðskjálfta á svæðinu án rofs og gert er ráð fyrir að undir stíflum geti myndast sprungur.
Samkvæmt hættugreiningu er mikil sprungugliðnun þvert á stíflumannvirki í jarðskjálfta versta mögulega tilfellið sem leitt gæti til stíflurofs.
Líkur á því eru metnar 1 á móti 10.000 á ári en í mati er gengið út frá líkunum 1 á móti 100.000 á ári vegna stórfelldra mistaka í hönnun og rekstri.
Afleiðingar stíflurofs voru skoðaðar og miðað við að aðalstífla í farvegi ár rofnaði og ef garðurinn á bökkum lónsins efst í Flóahreppi við Skálmholt og Skálmholtshraun gæfi sig. Til samanburðar var tekið mið af hættu vegna þúsund ára flóðs með og án mannvirkja.
Matið sýndi að þar sem vatnsmagn í lóninu er takmarkað og því hlutfallslega lítið magn í flóðöldu í samanburði við náttúruleg flóð í Þjórsá að þá myndi flóðtoppurinn fljótlega lækka og verða lægri en 1.000 ára flóð þegar það fer framhjá efstu bæjum á láglendi neðan gilsins við lónið. Flóðið á hvergi að ná upp fyrir bakka árinnar og því hvergi að bæjum nema að Sauðholti II í Ásahreppi.
Rof á stíflugörðum var skoðað á tveimur stöðum og var niðurstaða mats í kynningu að við verstu aðstæður gæti flætt að svæðinu í Skálmholtslandi og að bærinn Skálmholtshraun gæti orðið umflotinn.
1.000 ára flóð gæti valdið svipuðum áhrifum. Ef af Urriðafossvirkjun verður myndi slíkt flóð haldast í farvegi árinnar.
Í kynningu kom einnig fram að náttúrulegum flóðum fækkar með Urriðafossvirkjun og Urriðafosshrönn gæti ekki myndast.
Niðurstaða matsins var sú að útbreiðsla flóðs vegna stíflurofs í farvegi Þjórsár er mjög takmörkuð og að áin haldist að mestu í farvegi sínumog að ekki sé sérstök ástæða til að óttast manntjón.
Hætta á flóði vegna stíflurofs er langt innan tilskilinna marka í mati á umhverfisáhrifum og úrskurði umhverfisráðherra vegna virkjunar með tilliti til reglugerðar 505/2000.
Áhætta sem er fyrir hendi í dag vegna flóða með þúsund ára endurkomutíma án virkjunar er talsvert meiri en áhættan vegna stíflurofs ef mannvirki við virkjun yrðu byggð
Að lokinni kynningu komu gestir með fyrirspurnir um m.a. meðalrennsli í Þjórsá, hvenær skýrsla um áhættumat verði endanlega tilbúin, afhverju VST sé rannsóknaraðili að slíkri skýrslu, hvort að ekki sé hlustað á sérfræðinga sem vara við framkvæmdum á skjálftasvæði, rannsóknir á grunnvatni og margt fleira.
Verkfræðingar VST og fulltrúar Landsvirkjunar svöruðu þeim spurningum sem fundargestir báru fram.