Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps þann 7. mars s.l. var lagt fram erindi frá Samgöngunefnd Alþingis dags. 21. febrúar 2007 þar sem óskað er umsagnar sveitarfélagsins um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007-2018. Frestur til að skila inn umsögn og athugasemdum var til 27. febrúar 2007. Einnig er óskað umsagnar sveitarstjórnar við tillögu til þingsályktunar um samgönguáæltun fyrir árin 2007-2010 með sama umsagnartíma.
Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps þann 7. mars s.l. var lagt fram erindi frá Samgöngunefnd Alþingis dags. 21. febrúar 2007 þar sem óskað er umsagnar sveitarfélagsins um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007-2018. Frestur til að skila inn umsögn og athugasemdum var til 27. febrúar 2007. Einnig er óskað umsagnar sveitarstjórnar við tillögu til þingsályktunar um samgönguáæltun fyrir árin 2007-2010 með sama umsagnartíma.
Sveitarstjórn Flóahrepps lýsir yfir vonbrigðum með hversu litlar framkvæmdir eru fyrirhugaðar til vegbóta í sveitarfélaginu, samkvæmt fyrirliggjandi þingsályktunartillögum um samgönguáætlanir.
Flóahreppur er nýtt sveitarfélag sem varð til við sameiningu þriggja hreppa. Ein af grundvallarforsendum um sameiningu sveitarfélaga er krafa um bættar samgöngur en það er með ólíkindum í hve lélegu ásigkomulagi tengivegir og safnvegir í Flóahreppi eru, blómlegum landbúnaðarhreppi í nánasta nágrenni við helstu þéttbýliskjarna á Suðurlandi. Slíkt stendur búsetu, þróun byggðar, atvinnu og ferðaþjónustu fyrir þrifum en íbúar gera mikla kröfu um gæði vega og tengja það við búsetu.
Viðhald og uppbygging safn- og tengivega hefur verið í lágmarki og þarf að auka verulega en bundið slitlag er aðeins á um 22% tengivega í sveitarfélaginu.
Sveitarstjórn fer fram á, að unnið verði að markvissum úrbótum á tengivegum sveitarfélagsins og að til þess komi aukið fé og varanlegri aðgerðir m.a. með lagningu bundins slitlags.
Sá vegur sem sveitarstjórn Flóahrepps telur mjög brýnt að lagfæra með varanlegum hætti hið fyrsta er Hamarsvegur nr. 308.
Við þennan veg hefur undanfarin ár fjölgað til muna íbúðarhúsum.
Vegurinn er mikið notaður, m.a. til mjólkurflutninga og aksturs skólabarna en bílstjórar kvarta mikið undan þessari leið vegna afar lélegs ásigkomulags.
Jafnframt má benda á, að Hamarsvegur var nánast ófær í fjóra daga samfleytt 16.-19. janúar s.l., vegna snjóa. Þar sem um er að ræða mikilvæga samgönguæð, urðu margir fyrir verulegum óþægindum vegna þessa.
Einnig er bent á að veita þarf það fjármagn í Oddgeirshólaveg að unnt sé að lagfæra hann sem skyldi. Þar er mikil umferð á hverjum degi um afar slæman veg.
Sveitarstjórn bókar enn og aftur óánægju með að Alþingi skuli ítrekað senda álit og frumvörp til laga til umsagnar sveitarfélaga með litlum eða engum fresti.